Móðir allra hátíða :: Jólapistill Byggðasafns Skagfirðinga

Baðstofan í Glaumbæ. Húsmæður sópuðu allan bæinn fyrir jólin. Allt var þvegið hátt og lágt, nærföt þvegin og stundum úr rúmunum líka. Mynd/BSk
Baðstofan í Glaumbæ. Húsmæður sópuðu allan bæinn fyrir jólin. Allt var þvegið hátt og lágt, nærföt þvegin og stundum úr rúmunum líka. Mynd/BSk

Jólin hafa verið kölluð móðir allra hátíða. Þá var eins og nú ekki lítið um dýrðir fyrir börn, sem hlakkaði svo til að sjá öll ljósin tendruð, bæði í torfbæjum og kirkjum – en eins og þið hafið tekið eftir þá var ansi dimmt í gömlu bæjunum á veturna, það mætti segja að veturinn hafi verið eins og ein stór rökkurganga.

Á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld voru ljós sett í hvern krók og kima svo hvergi bæri skugga á – þetta var sannkölluð ljósahátíð. Þó ekki fyrr en húsmæður voru búnar að sópa allan bæinn, allt þvegið hátt og lágt, öll nærföt þvegin og stundum úr rúmunum líka, og jafnvel mestu sóðarnir brutu venjuna og voru hreinir og þokkalegir. Það var nefnilega gömul trú hér á landi að guð léti koma þíðvindi og þurrk rétt fyrir jólin til að fólk gæti þvegið af sér fötin og fengið þau þurr sem fyrst – þetta var kallað fátækraþerrir.

Þegar búið var að gera fínt þá kveiktu húsmæðurnar ljósin, síðan gengu þær út og í kring um bæinn allt að þrisvar sinnum og „buðu álfum heima“ sem kallað var og sögðu: „Komi þeir, sem koma vilja, veri þeir, sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu“. Þessari hefð fylgdi stundum að konur báru vín á borð fyrir álfa, og segir sagan, að það væri jafnan horfið að morgni.

Jólatré með kertaljósum. Á aðfangadagskvöld og
gamlárskvöld voru ljós sett í hvern krók og kima svo
hvergi bæri skugga á – þetta var sannkölluð ljósahátíð.
Mynd/BSk

Ljósagangurinn var ekki minni á jólanótt. Þegar fólkið fór að hátta í baðstofunum passaði húsfreyjan að engin ljós væru slökkt og að þau myndu endast út nóttina þangað til að bjartur dagur væri kominn á ný. Þá tíðkaðist að gefa hverju mannsbarni kerti bæði þessi kvöld, en þið kannist kannski við þá hefð? Eins og segir í laginu:

Bráðum koma blessuð jólin,
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt,
í það minnsta kerti og spil.
 

Prjónaflíkur. Allir þurftu að fá einhverja
nýja flíká jólunum, því annars var sagt
að fólk færi í jólaköttinn. Myndir/BSk

Margir fóru til kirkju á aðfangadagskvöld en ef ekki var farið til kirkju þá hófst jólalesturinn um kl. 6 – sem er dálítið líkt því sem mörg okkar gera í dag nema nú látum við útvarpið um lesturinn og að hringja inn jólin. Þá var bærinn orðinn upptendraður og allir búnir að þvo sér, greiða og fara í betri fötin. Þegar lestri var lokið var farið fram og borinn inn jólamaturinn: magáll, sperðlar (s.s. bjúgu) og ýmislegt hnossgæti og 3-4 laufakökur. Þá var ekki venja að skammta hangiket á jólanóttina (það er aðfangadag), allavega ekki hér á Norðurlandi. Svo eftir að kaffi kom til, þá var boðið upp á kaffi og lummur um kvöldið. Stundum var líka hnausþykkur grjónagrautur með sýrópi út á, síðar rúsínugrautur. Þetta þótti allt hið mesta sælgæti. En, ekki mátti leika sér á aðfangadag - hvorki spila né dansa og alls ekki rífast eða blóta – það boðaði ekki gott.

Allir þurftu að fá einhverja nýja flík á jólunum, því annars var sagt að fólk færi í jólaköttinn, sem var óvættur sem tók þá sem enga nýja flík fengu. Það er líka til önnur svolítið skrítin saga um ný föt á jólunum, þeir sem enga flík fengu, áttu að fara á aðfangadag þangað sem þeir voru fæddir – sem var þá yfirleitt eitthvert herbergi eða hús í bænum þeirra því þá fæddu konur börnin sín heima – með fullt hrútshorn af hlandi eða pissi í hendinni, og skvetta því yfir rúmið sem þeir höfðu fæðst í. Þessi saga átti í raun að hvetja krakka sem höfðu ekki verið nógu dugleg að læra eða prjóna fyrir jólin, því í gamla daga prjónuðu krakkar mikið. En ef allt var með felldu komu Grýla og Leppalúði ekki og enginn þurfti að fara í jólaköttinn – og glatt var á hjalla hjá börnum og fullorðnum.

 

Byggðasafn Skagfirðinga óskar landsmönnum öllum gleðilegrar jóla- og ljósahátíðar!

Heimild: Jónas Jónasson, Einar Ól. Sveinsson, & Halldóra J. Rafnar. (2010). Íslenzkir þjóðhættir. (4. útgáfa ed.).

/Berglind Þorsteinsdóttir

Áður birst í 48. tbl. Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir