Nándin - Áskorandapenni Sofia B. Krantz, sálfræðingur og bóndi í Víðidalstungu 2

Ljósmynd: Einar Ragnar Haraldsson.
Ljósmynd: Einar Ragnar Haraldsson.

Ég þakka Sigríði Ólafsdóttur kærlega fyrir áskorunina og tek undir með henni. Samfélagið okkar er virkilega magnað. Ég er fullviss um að nándin skiptir hér miklu máli. 
Hvað er nánd? Guðbrandur Árni Ísberg gaf út bókin „Í nándinni – Innlifun og umhyggja“ árið 2013. Nánd má lýsa sem taugafræðilegt, lífeðlislegt og tilfinningalegt ástand, þar sem við getum verið við sjálf, sagt það sem okkur raunverulega finnst og gert það sem okkur raunverulega langar að gera. Eins og við öll vitum þá er það ekki alltaf sjálfsagt, einfalt mál. Hvað þarf til þess? Hvað getur staðið í vegi?

Þegar upp er staðið eigum við margt sameiginlegt við hjarðdýrin okkar. Við höfum líka þörf fyrir að tilheyra og fylgja hópnum okkar, því þar er öryggi okkar. Okkur er ekki eðlislægt að líða vel þegar við erum ein, aftengd öðrum. Hópeðlið hefur sannarlega sína kosti, en einnig galla og býður upp á flækjustig. Til dæmis getur hópdýr auðveldlega orðið að bráð félagslegra ógna og félagslegs ótta. Guðbrandur gaf út aðra bók, „Skömmin – Úr vanmætti í sjálfsöryggi“ árið 2019 en þar rekur hann tilgang og eðli skammarkerfisins – félagslega varnarkerfisins – okkar. Ég mæli eindregið með bókum hans, fyrir þann sem langar að kynnast hvað það raunverulega er að vera manneskja.

Þegar hópdýrið upplifir félagslegt óöryggi og félagslegan ótta eru ýmis varnarviðbrögð í boði, sem oft snúast um að flýja hið óþægilega. Þetta er skiljanlegt en vandasamt, því í ákveðnar aðstæður viljum við jú í raun gera það sem er erfiðast að gera. Stundum viljum við gera það sem vekur upp mestu óþægindin hjá okkur, af því að við vitum að það er það réttasta að gera. Ef mig langar að hjálpa vini með áfengisvanda, þá er ekki hjálplegt að rétta viðkomandi flöskuna þegar hann biður um hana. Það er um að gera að skilja orsakir og skýringar þess að einhver hegði sér á óheilbrigðan og skaðlegan hátt, en ekki réttlæta eða afsaka.

Nándin og tengslin sem við búum við í þessu frábæra samfélagi okkar getur auðveldlega ýtt undir það að við forðumst. Hins vegar, ef við getum staldrað við, ef við skiljum okkar eigin eðlislægu flóttaviðbrögð, ef við þorum að ganga inn í óttan, ef við getum beitt yfirvegaðri hreinskilni og ákveðni út frá samkennd, þá þurfum við í langflestum tilfellum ekki að hafa áhyggjur af því að eyðileggja eða missa náin tengsl. Ekki ef tengslin voru náin til að byrja með.

Skömmin og félagslegi óttinn sér um að forðast og fela hluti, en nándin getur leyft okkur að nálgast og mætast. Þar sem er rými fyrir að vera eins og við erum, eins ófullkomin og við getum öll verið, þar er gott samfélag. Þar sem einhver getur mætt okkur akkúrat þar sem við erum og haft orð á hlutunum eins og þeir eru, þar er virkilega gott samfélag. Ég ætla að henda pennanum norður í dal og skora hér með á Hartmann Braga Stefánsson á Sólbakka að skrifa pistil.

Áður birst í 14. tbl. Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir