Niðurgreiða skagfirsk heimili orku til fyrirtækja?

Helgi Thorarensen
Helgi Thorarensen

Síðast liðið vor samþykkti stjórn Skagafjarðaveitna gjaldskrá fyrir heitt vatn. Þar var nýtt ákvæði um að stórnotendur, sem nota meira en 100 þús. tonn af heitu vatni á ári, megi sækja um 70% afslátt. Jafnframt var sprotafyrirtækjum og nýsköpunarfyrirtækjum, sem vildu nýta heitt vatn sem beinan framleiðsluþátt, gefin kostur á að sækja um afsláttinn.

Fáein fyrirtæki og stofnanir höfðu áður samið um afslátt af vatni auk þess að veittur er afsláttur af heitu vatni til íþróttamannvirkja og félagsheimila. Á árinu 2015 mun afsláttur Skagafjarðaveitna á heitu vatni nema 60-70 milljónum króna og ná til um 5-10% af heitavatnsnotkun í sveitarfélaginu. Svipuð tilboð eru hjá nokkrum öðrum hitaveitum.

Þrátt fyrir nýja ákvæðið hefur ekki tekist að skapa eðlilegan farveg fyrir afgreiðslu umsókna um afslátt á heitu vatni. Eðlilegast er að stjórn veitunnar taki ákvarðanir um afslætti og meti hverja umsókn með hliðsjón af hagsmunum íbúa áður en afsláttur er veittur, enda er ekki gert ráð fyrir að fyrirtæki fái sjálfkrafa afslátt þótt notkun fari yfir ákveðin mörk. Í gjaldskránni eru fyrirvarar um að nægilegt vatn og flutningsgeta sé fyrir hendi. Jafnframt hljóta eigendur veitunnar, þ.e.a.s. íbúar sveitarfélagsins, að gera þá kröfu að fyrirtækin taki eðlilega þátt í rekstrarkostnaði veitunnar og uppbyggingu.

Eina umsóknin, sem borist hefur á þessu ári, var þó ekki tekin fyrir í stjórn veitunnar. Þess í stað bárust Skagafjarðarveitum fyrirmæli úr Ráðhúsinu um að veita fyrirtækinu 70% afslátt á öllu heitu vatni sem það kaupir á árinu 2015. Það er reyndar vafasamt hvort sá gjörningur er löglegur því gjaldskráin tók ekki gildi fyrr en 1. október, en afslátturinn var látinn gilda afturvirkt allt árið. Það er óljóst hvort formleg umsókn barst frá fyrirtækinu, hver tók ákvörðun um að veita afsláttinn og á hvaða forsendum eða hvort samningur hafi verið gerður við fyrirtækið.

Brýnt hefði verið að taka umsóknina fyrir í stjórn Skagafjarðarveitna, því álitamál var hvort flutningsgetan hafi verið fyrir hendi. Nýlega var farið í umfangsmiklar endurbætur á dreifikerfi veitunnar, sem m.a. snérust um að að tryggja viðkomandi fyrirtæki nægilegt heitt vatn og hugsanlegt er að þörf sé á frekari aðgerðum. Vissulega tengdust þessar framkvæmdir almennum endurbótum á dreifikerfi, en kostnaður vegna lagnar til fyrirtækisins var umtalsverður. Því hefði verið rétt að skoða sérstaklega hvort afsláttarverðið, sem fyrirtækið fær, nægi til þess að greiða sanngjarna hlutdeild í rekstarkostnaði og fjárfestingu í dreifikerfi veitunnar. Altént dugir heimæðargjaldið, sem fyrirtækið hefur þurft að greiða skv. gjaldskrá, ekki nema fyrir broti af þessari framkvæmd. Til samanburðar má nefna að heimæðargjaldið er væntanlega lægra en það sem nýir notendur í dreifbýli Skagafjarðar þurfa að greiða.

Að sjálfsögðu bar Skagafjarðarveitum að sjá fyrirtækinu fyrir nægu vatni enda af nógu að taka. Það er vissulega jákvætt að sveitarfélög sem búa yfir nægilegum jarðhita geti nýtt hann til þess að efla nýsköpun og atvinnustarfsemi. Hins vegar er óeðlilegt að íbúar Skagafjarðar niðurgreiði heitt vatn til fyrirtækja og það er á ábyrgð stjórnar veitunnar að svo sé ekki. Því ber ber að leggja umsóknir um afslátt til fyrir stjórn. Afgreiðsluferlið þarf að vera gagnsætt, upplýsingar um afslætti til einstakra aðila öllum aðgengilegar og ljóst að farið sé að skýrum verklagsreglum. 

Helgi Thorarensen

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir