Nú falla öll vötn til Skagafjarðar

Hjalti Pálsson bauð gesti velkomna í upphafi samkomunnar.
Hjalti Pálsson bauð gesti velkomna í upphafi samkomunnar.

Þannig hóf Hjalti Pálsson Byggðasöguritari mál sitt þegar hann bauð gesti velkomna til afmælisfagnaðar í Miðgarði á eftirmiðdegi sunnudaginn 26. júní. Daginn áður hafði hann fyllt 75 árin og hélt upp á þau tímamót og jafnframt að lokið var nú útgáfu Byggðasögu Skagafjarðar en tíunda og síðasta bindi hennar kom út fyrir síðustu jól. Hjalti auglýsti opið hús í félagsheimilinu og voru allir boðnir velkomnir.

Laust fyrir klukkan hálffjögur setti Hjalti samkomuna með stuttu ávarpi sem hófst með fyrrgreindum orðum sem hann lagði síðan út af, dró upp myndræna sýn af Arnarstapanum yfir Skagafjarðarhérað og bar saman við keimlíka setningu sem sögð var rúmlega þúsund árum fyrr á Gemlufallsheiði vestra af Vésteini fóstbróður Gísla Súrssonar eftir að honum hafði borist aðvörun frá Gísla. – „Nú falla öll vörn til Dýrafjarðar.“ Héðan af yrði ekki snúið til baka. Örlögin yrðu ekki flúin og hann yrði að ganga þeirra á vit. Hjalti taldi að e.t.v. hefði honum, með ólíkum hætti þó, verið sköpuð örlög þarna á Vatnsskarðinu þegar ráðið var að hann tæki við störfum í Safnahúsi Skagfirðinga og settist að á Sauðárkrók.

Björn Björsson f.v. skólastjóri á Sauðárkróki tók síðan við veislustjórn og stýrði dagskrá. Var hann með ýmis innlegg frá eigin brjósti milli atriða og fórst það mætavel. Fyrstur á dagskránni var Agnar Gunnarsson bóndi á Miklabæ sem las í um það bil 15 mínútur nokkra „stubba“, einskonar smáfrásagir og gamansögur sem Hjalti hefur skrifað niður í áranna rás af ýmsum atvikum og orðaskiptum milli manna. Flest allt var það óprentað efni og flestum ókunnugt. Varð strax hlátur og léttleiki í salnum. Eftir það komu á svið Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri og Íris Olga Lúðvíksdóttir í Flatatungu og fluttu söngatriði, m.a. sögn Íris tvö lög þar sem Stefán Gíslason sá um undirleik. Næstir stigu á svið Álftagerðisbræðurnir. Óskar hafði orð fyrir þeim bræðrum að vanda og komst vel frá því eins og endranær. Þeir tóku samtals fimm lög og byrjuðu á lagi eftir sjálfan afmælisdrenginn, Í Glerhallavík, sem frumflutt hafði verið sextugsafmæli Hjalta í Árgarði 2007 en enduðu á skagfirska laginu Erla góða Erla. Heiðmar Jónsson á Selfossi, ættaður frá Ártúnum í Blöndudal, en um skeið kennari á Steinsstöðum, flutti ávarp en síðasti liður fyrir kaffihlé var kvæðalestur Iðunnar Kolku Gísladóttur 12 ára frá Vöglum. Hún flutti fyrst kvæðið Höfundur Njálu eftir Sigurð Pálsson sem hún las í upplestarkeppni grunnskólanna í Skagafirði í vor en síðan kvæði í tíu erindum sem Sigurður Hansen hafði ort um Hjalta og nefndi Heiðursborgararímu. Las hún bæði vel og skörulega fyrir afa sinn í afmæli hans.

Var nú gengið að hlaðborði til veitinga sem Kvenfélag Seyluhrepps sá um. Voru það kaffiveitingar að gömlum hætti; kleinur, flatbrauð með hangikjöti, pönnukökur, hjónabandssæla og jólakökur. Fólk sat í salnum meðan dagskrá fór fram en gat setið við borð meðan það neytti veitinganna.

Fyrstur eftir hlé steig fram Bjarni Maronsson og flutti aðalræðu dagsins til heiðurs afmælisdrengnum. Fór hann um víðan völl í umfjöllun sinni um afmælisdrenginn sem hlustaði með athygli á þær frásagnir um ýmis afreksverk og ágæti sem hann skyldi hafa framið en eins og hann sagði sjálfur eftirá þá var honum ærið margt af því algerlega úr minni fallið en þorði samt ekki að efst um neitt, af því hann sagðist vera búinn að gleyma svo mörgu sem hann ætti að muna frá fyrri tíð. En gerður var góður rómur að máli Bjarna sem þótti hin mesta snilld. Eftir þetta áhlaup Bjarna kom Agnar aftur og flutti seinni helming stubbanna sem endaði með frásögn úr æsku afmælisdrengsins. Eftir þetta komu Íris og Gunnar aftur og fluttu nú bragi sem Gunnar hafði sérstaklega samið og sniðið að tilefninu. Að síðustu fluttu nokkrir ávörp. Fyrst Unnar Ingvarsson fyrrverandi skjalavörður, síðan María Pálsdóttir systir Hjalta, þá kom systursonurinn Hjalti Páll Þórarinsson og loks séra Gísli Gunnarsson í Glaumbæ. Öll voru þessi ávörp skemmtileg og skorinorð.

Klukkan var að verða sjö þegar Hjalti steig aftur í stólinn og flutti þakkir, samstarfsfólki sínu fyrr og síðar, fjölskyldu sinni og skemmtikröftum öllum sem á einn eða annan hátt höfðu lagt til þessarar stundar að gera sér hana eftirminnilega. Þakkaði hann gestum að endingu fyrir komuna og bað fólk vera jákvætt og fara með sig. Hann lýsti ánægju sinni með hvernig til hefði tekist og sagðist sem best geta tekið undir orð mannvinarins Björns Hjálmarssonar á Mælifellsá þegar hann hélt upp á áttræðisafmæli sitt og var eftir á spurður hvernig gengið hefði? „Alveg prýðilega, þakka þér fyrir“, svaraði Björn, „og það besta var að það urðu engin illindi.“

Um 120 manns sóttu samkomuna og var það mál manna að þetta hefði verið hin besta skemmtun og vel heppnuð í alla staði. Feykir óskar Hjalta til hamingju með afmælið og þakkar honum ómetanlegt framlag hans til sögu Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir