Prýðileg reiðtygi frá liðnum öldum – Kristinn Hugason skrifar

Í þessum pistli verður tekið hlé frá umfjölluninni um hin margbreytilegu hlutverk íslenska hestsins á vegferð hans með þjóðinni frá landnámi til nútíma en að afloknu sumarhléi, nú í september, verður þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið hér á síðum blaðsins og fjallað áfram um sögu keppna á hestum hér á landi.

Nú verður hins vegar kynnt til sögunnar ný sýning sem sett hefur verið upp á Sögusetri íslenska hestsins á Hólum og hefur að inntaki að miðla fróðleik um reiðtygi fyrri alda.

Vissulega er það svo að reiðver Íslendinga voru almennt ekki mikilfengleg, allra síst í samanburði við það sem þekktist með öðrum þjóðum þar sem fjölmenni var og því kröftugri hástétt, auður mikið meiri og hermennska stunduð. Hitt er þó staðreyndin að reiðverin voru oft á tíðum mun glæsilegri og meira í þau lagt en margur hyggur.

Á árinu 2018 var sett upp einkar glæsileg sýning í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands undir heitinu Prýðileg reiðtygi frá liðnum öldum og var uppi frá því í febrúar og vel fram í október. Á sýningunni var úrval skreyttra söðla, söðulreiða og söðuláklæða úr safneign Þjóðminjasafns Íslands. Sýningarhöfundur var Lilja Árnadóttir. Í tengslum við sýninguna kom út samnefnt rit þar sem fjallað er um söðla og það handverk sem notað var til að prýða þá. Í greinum ritsins er rýnt í drifið látún þar sem birtast blómstrandi jurtir og framandi dýralíf í heillandi myndum. Séríslensk glituð söðuláklæði eru einnig til vitnis um listfengi þeirra sem sköpuðu þessa ríkulegu arfleifð. Greinahöfundar eru Ingunn Jónsdóttir, Ragnheiður Björk Þórsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Ritstjóri er Anna Lísa Rúnarsdóttir.

Umrætt rit er til sölu í safnverslun Sögusetursins á Hólum. Eftir að sýningin var tekin niður hjá Þjóðminjasafninu bauðst Sögusetri íslenska hestsins að fá hana og setja upp í húsnæði setursins á Hólum. Vitaskuld setti aðstaðan á Hólum þessari viðleitni nokkrar skorður, s.s möguleikar á vöktun sýningarinnar, kröfur til sýningasalarins o.fl. Það var því ekki unnt að fá nema takmarkað af sýningamunum norður en það væri svo hægt að bæta  upp með myndefni, auk þess sem Byggðasafn Skagfirðinga gæti komið með myndarlegum hætti að málinu og m.a. lánað safnmuni til sýningarinnar.

 

Þetta varð úr og réðist Sögusetur íslenska hestsins í að setja upp sýningu undir heitinu Prýðileg reiðtygi frá liðnum öldum og var unnin í samvinnu við Byggðasafn Skagfirðinga og Þjóðminjasafn Íslands. Verkefnisstjóri við uppsetningu sýningarinnar var Sigríður Sigurðardóttur, hún er og textahöfundur. Allur kynningartexti sýningarinnar er á íslensku eins og aðrir kynningartextar á sýningum setursins en bæklingar um sýninguna á ensku liggja frammi; undir heitinu Riding Gear of Past Centuries. Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra styrkti verkefnið.

Á sýningunni kennir margra grasa, s.s. þessa mikið skreytta söðuls, sjá mynd tekin af Sigríði Sigurðardóttur. Söðullinn er með háum bríkum og breiðri sveif, hann er frá 1766 og er „hellulagður“ með drifnum þunnum látúnsþynnum (hellum) og þess vegna kallaður hellusöðull. Hinar svokölluðu hellur sem var mjög listrænt handverk voru unnar með ákveðinni tækni og festar með málmræmum, kallaðar beitur, sem voru negldar á allar brúnir. Myndverk þessi sem voru sannkölluð barokklistaverk sýndu táknmyndir úr ýmsum áttum. Margt fleira forvitnilegra muna er að finna á sýningunni, s.s. annan sveifarsöðul, einnig frá 18. öld. Hann er af sömu gerð og hinn fyrrnefndi en íburðarminni, gerður úr tré og málaður, sjá og mynd sem tekin er af Sigríði Sigurðardóttur.

Báðum þessum söðlum hefur verið breytt; seta og löf hafa verið fjarlægð af þeim málaða, þegar hætt var að nota hann, en þegar hætt var að leggja hellusöðulinn á hest, á 19. öldinni, var hann settur á vandað statíf á fótum og notaður sem listilegt húsgagn langt fram á 20. öld.

Margra fleiri grasa kennir á sýningunni sem sjá má á myndunum, s.s. beislismél (stangamél á fyrri myndinni) og hringamél, á þeirri síðari, auk ístaða sem þar eru og hringjur ýmiss konar. Ennislauf sem iðulegast voru til skrauts á vönduðum höfuðleðrum hanga svo uppi á fyrri myndinni, en þau eru ögn að ryðja sér til rúms að nýju. Á fyrri myndinni má og sjá á veggnum handan glerskápsins mynd af söðuláklæði. En á síðari myndinni, að neðan, er að finna undirdekk. Bæði undirdekkin og söðuláklæðin voru vandaðir og fagrir nytjamunir. Undirdekkin voru algeng undir hnökkum karla til að verja reiðfötin og til prýði, jafnvel einnig til að hlífa baki hestsins eins og undirdýnur þær sem notaðar eru nú til dags. Söðuláklæðin þjónuðu svo þeim tilgangi að verja reiðkonuna fyrir kulda og hana sjálfa og söðulinn fyrir óhreinindum, s.s. aur, slabbi og ryki.

Einn skrautmun til viðbótar sem tengist reiðtygjum er vert að nefna en það er hin svokallaða reiðakúla en reiðar voru iðulega á fyrri öldum mjög íburðarmiklir og skrautlegir. Reiðinn var festur við hnakk- eða söðulvirkið og spenntur aftur fyrir tagl með volka. Hann þótti þá algerlega ómissandi hluti reiðversins til að varna því að það leitaði fram, svo þótti raunar enn til skamms tíma, nú eru reiðar nær algerlega aflagðir samfara breyttri og bættri hönnun reiðvera o.fl. Reiðarnir voru oft með sprotum, náraslettum og reimum, ágröfnum reiðakúlum sem var komið fyrir um miðjan reiðann, ásamt með spöðum til frekara skrauts. Reiðakúlurnar voru hálfkúlur eða disklaga stykki, steyptar úr kopar, oft mikið úflúraðar með skrauti í stíl við það sem á reiðverinu var og oft með áletraðri kveðju eða heilræði til knapans, s.s. „Ríddu varlega, drekktu sparlega, dauðinn kemur snarlega“.

Á sýningunni er og að finna þá gerð söðla sem flestir kannast við, þ.e. hina svokölluðu klakksöðla („enskir söðlar“), en á 19. öld leystu þeir hina eldri gerð sveifarsöðla algerlega af hólmi. Þar er og að finna dæmi um reiðþófa með hamól en reiðþófin var einmitt algengasta reiðtygi almennings allt fram á 19. öld þegar iðnbyltingin skóp af sér stétt tæknivæddra söðlasmiða sem áorkuðu að framleiða reiðtygi á skaplegra verði en áður var.

Margra fleiri grasa kennir á sýningunni en sjón er sögu ríkari og er því fólk kvatt til að leggja leið sína heim að Hólum og sækja Sögusetrið heim og sjá m.a. þessa nýju og einkar fróðlegu sýningu.

Kristinn Hugason.

Áður birst í 26. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir