Er allt að sjóða upp úr? | Leiðari 39. tölublaðs Feykis

Sumarið hefur verið óvanalega langt í ár. Það byrjaði með einstakri hitabylgju í maí og enn höfum við ekki fengið alvöru hausthret. Sennilega eru flestir ánægðir með þetta nema mögulega þeir sem vinna við dekkjaskipti – ekki mikið að gera þar væntanlega. En það styttist í veturinn og þá fer allt á suðupunkt í dekkjabransanum.
Sjónvarpsstöðvarnar hafa nú skellt sér úr stuttbuxunum og eru komnar í kuldagallann. Í síðasta leiðara minntist ég aðeins á að það væri lenskan í spjallþáttabransanum að kalla látlaust til sama fólkið úr listalífi höfuðborgarinnar – þannig væri það alltaf í Vikunni hjá Gísla Marteini. Að sjálfsögðu svaraði Gísli þessu með því að kalla til Skagfirðingana Helga Sæmund, Arnar Frey, Reyni Snæ og Baltasar Kormák (!) og Akureyringinn Gumma Ben í síðustu Viku. Og Gísli var auðvitað í sveit í Víðidalnum þannig að það var landsbyggðarsveifla á þættinum. Svona fær maður alltaf á snúðinn þegar maður er með derring.
Auddi Blö er mættur á skjáinn á ný með hina bráðfyndnu þætti Bannað að hlæja. Það er rétt að árétta að þessir þættir eru bannaðir börnum. Ég viðurkenni að mér finnst þetta konsept frábært og þættirnir ógeðslega fyndnir – og í þessu tilviki á ógeðslega ógeðslega vel við. Því oftar en ekki er farið rækilega yfir velsæmismörk í þáttunum og vonandi eru þátttakendur ekki hörundsárir og langræknir.
Óvænt stjarna síðasta þáttar var glamúrdrottningin og áhrifavaldurinn Guggaígúmmíbát. Hún sótti grimmt til sigurs og sló vopnin úr höndum helstu andstæðinga sinna enda var hún með cunning plan eins og Baldrekur forðum. Var í raun bæði bráðsnjöll og baneitruð (ólíkt Baldreki). Hinn geðþekka útvarpsmann, Andra Frey, gerði hún gjörsamlega hvumsa og kjaftstopp með látlausu skjalli á meðan hún hæddist að Emmsé Gauta. Sem betur fer stóð rapparinn árásirnar af sér að mestu en gat ekki annað en hlegið með hinum þátttakendunum af óskammfeilni Guggu – og það var bannað.
Gott sjónvarp fyrir fullorðna en aldeilis ekki eitthvað sem börn – og aðrir minna þroskaðir menn – ættu að taka sér til fyrirmyndar. Maður beið eiginlega bara eftir að það syði upp úr.
Og fyrst rætt er um suðu þá er nú vonandi að Trump hafi loksins tekist að lækka aðeins undir suðupottinum í Miðausturlöndum með því að knýja fram vopnahlé á milli Ísraela og Hamas-samtakanna. Það er reyndar væntanlega tilviljun að það hafi gerst nánast á sömu stundu og Ísraelsher handtók Möggu Stínu sem stefndi ótrauð til Gaza ásamt félögum sínum sem vildu rétta fólki í neyð hjálparhönd. Þó ekki séu allir hrifnir af Möggu Stínu þá var ljótt að sjá hvernig fólk hæddist að henni í kommentakerfum samfélags- og fjölmiðla.
Sem betur fer er til fólk sem er tilbúið að taka slaginn fyrir þá sem búa við hörmungar og það jafnvel þó verkefnin virðist óyfirstíganleg. En dropinn holar steininn og við skulum virða viðleitni fólks eins og Möggu Stínu ... þó hún muni örugglega pirra okkur aftur á 17. júní.
Óli Arnar Brynjarsson, ritstjóri