Ríkið fækkaði störfum á Norðurlandi vestra
Ein leiðin að styrkingu byggðar hefur verið að efla opinbera þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki með því að auka heildarumsvif þessarar starfsemi, heldur með því að staðsetja meira af opinberri þjónustu á landsbyggðinni. Ríkið er nefnilega stærsti vinnuveitandi á Íslandi og staðsetning vinnuafls þess ræður því miklu um búsetu þróunina og einnig því hvernig þjónustan er veitt.
Óneitanlega hafði tekist bærilega með sumt í því sambandi. Sem dæmi á Norðurlandi vestra má nefna eflingu vísinda og þróunarstarfsemi, háskólastarfs, flutning verkefna til sýslumanna, flutning einstakra verkefna stórra opinberra stofnana og eflingu heilbrigðisstofnana og menntastofnana.
Ríkisstörfum snarfækkaði Norðurlandi vestra
Á síðustu árum hefur þetta mjög snúist til verri vegar. Opinberum störfum á Norðurlandi vestra hefur fækkað mikið. Þau voru um 520 árið 2008. Síðustu tölur herma að þau séu komin ofan í 478. Fækkun um 40 störf. Er þetta mikil eða lítil fækkun? Svörum spurningunni með því að setja þessar tölur í samhengi. Á bak við hvert þessara starfa er fjölskylda. Segjum fjögurra manna fjölskylda. Búsetuforsendur 150 til 200 einstaklinga urðu því í uppnámi, þegar ríkið ákvað að leggja niður þessi störf á Norðurlandi vestra.
Og jafnvel þessar tölur segja ekki nema hálfa söguna. Ef litið er yfir einstakar opinberar stofnanir blasir við að einungis fjölgar í einni þeirra. Hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd, er starfsstöð atvinnuleysistrygginga innan vébanda stofnunarinnar. Þar hefur þróunin orðið sú að starfsfólki hefur fjölgað vegna versnandi atvinnuástands í landinu og meira atvinnuleysis. Fjölgunin þar varð 16 störf. Þannig að ef það er undanskilið er fækkunin enn meiri að um 55 til 60 opinber störf á svæðinu.
Stórkallalegust er fækkunin á heilbrigðisstarfsmönnum í Skagafirði. Við þau störf unnu 119 manns árið 2008. Árið 2012 var þetta starfsfólk komið ofan í 85. Fækkun um nærfellt 35 starfsmenn. Samtals fækkaði ríkisstörfunum í Skagafirði um tæp 50 á þessum tíma. Og miðað við fjögurra manna fjölskyldu er ljóst að bein áhrif hafa orðið á um 200 manns, vegna þessa í Skagafirði einum.
Lofað var að ekkert yrði skorið niður í Norðvesturkjördæmi
Þessi þróun er alls ekki sjálfsögð. Að sönnu er nauðsynlegt að standa á bremsunni almennt þegar kemur að ríkisútgjöldum og við erum ekki ónæm fyrir því á landsbyggðinni fremur en aðrir; og það þó því hafi verið lofað af frambjóðendum úr flokki Vinstri grænna að ekkert yrði skorið niður í Norðvesturkjördæmi. En loforðin á þeim bæ hafa ekki verið mjög til að reiða sig á eins og allir vita.
Þegar að er gáð er ljóst að ríkisvaldið hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á uppbyggingu alls konar eftirlitsiðnaðar og skyldra hluta. Sú starfsemi hefur öll verið byggð upp á höfuðborgarsvæðinu. Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna á landsbyggðinni hafa steinsofið á verðinum og ekki gætt þess að landsbyggðin fengi sanngjarnan skerf af þessari aukningu. Meira að segja sérstakt eftirlitsbatterí með nýja landsbyggðarskattinum, veiðigjaldinu, er staðsett á höfuðborgarsvæðinu, þó léttur leikur hefði verið að staðsetja það í starfsstöðvum úti á landsbyggðinni.
Þegar við nú veltum fyrir okkur ástæðum búferlaflutninga á síðustu árum, er nauðsynlegt að hafa í huga þróun opinberra starfa. Þau eru örugglega býsna stór og ráðandi þáttur í búsetuvalinu. Þar hefur allt farið á verri veginn á Norðurlandi vestra og ræður örugglega talsvert miklu um íbúaþróunina síðustu fjögur árin eða svo.
Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.