Saltkjöt og dauði, túkall! :: Leiðari Feykis

Mynd: Pexels.com/Dustin Tray.
Mynd: Pexels.com/Dustin Tray.

Ég hef aldrei skilið þá athygli sem einstaka íslenskur matur vekur nokkra daga á ári í fjölmiðlum Íslands. Hver kannast ekki við viðtölin við fólk sem gæðir sér á skötu á Þorláksmessu og dásamar missterkan ilminn sem berst frá pottum og fiskfötum eða hreinlega af disknum sem yfirleitt er þá hlaðinn góðgætinu fyrir framan viðmælandann. Þarna er fólk að borða mat sem margir neyta oft á ári.

Á þorranum er vinsælt að sýna börn stinga upp í sig hákarli og ekki bregst það að flest þeirra spýta bitanum út úr sér aftur þar eð þau eru ekki vön slíku sælgæti. Ekki skemmir það heldur fyrir ef þau fást til að smakka súrmatinn. Og nú er nýliðinn sprengidagur og þá er einnig rokið til og myndað ofan í veislupottinn þar sem hrært er í baunasúpunni og jafnvel sést glitta í saltkjötsbita. En nú erum við komin á hættulegar slóðir því saltið er að drepa okkur.

Ég heyrði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær, þar sem rætt var við Önnu Rögnu Magnúsardóttur næringarfræðing og doktor í heilbrigðisvísindum, að saltkjöt væri það óhollasta sem nokkur maður lætur inn fyrir sínar varir. En sem betur fer dró hún heldur úr ógninni í næstu setningu þar sem hún sagði að flestir myndu þola það að fá sér bita á sprengidaginn. En svo hélt hún áfram: „En það er margt í saltkjöti sem er varasamt, þetta er t.d. rautt kjöt og mikil neysla á rauðu kjöti hefur fylgni við krabbamein í ristli,“ sagði hún og nefndi einnig að í saltkjöti væri saltpétur.

Þetta eru ekki góðar fréttir á sjálfan sprengidaginn þar sem virðist sem svo að verið sé að dæla eitri í fólk og rauðu kjöti í þokkabót sem bændur landsins framleiða og hafa lifibrauð sitt af. Já, skömm er af slíku. Nú bíður maður bara eftir sömu fréttum næstu jól því hangikjötið er sama helvítis eitrið og jafnvel verra þar sem einnig er búið að koma baneitruðum taðreyk í það líka.

Þetta er alveg örugglega rétt hjá doktornum að ofneysla þessara matvæla er skaðleg, rétt eins og ofneysla alls, en til hvers að framreiða slíkan hræðsluáróður á degi saltkjötsins. Ég geri ráð fyrir því að allir sem eiga við of háan blóðþrýsting að stríða séu á varðbergi þennan dag sem aðra daga.

Hvað saltpéturinn varðar, sem notaður var óspart á árum áður, er hann nú í formi nítrits blandaður við saltið og notaður eftir ströngum skilyrðum, innan hættumarka, og ber E númerið 250. Til að minnka hugsanleg skaðaáhrif nítritsins er nítritsaltinu gjarna blandað við matarsalt auk þess sem nokkur efni vinna gegn þeim áhrifum líka t.d. ascorbinsýra eða C vítamín, sem einnig gerir gagn sem þráavarnarefni.

Einhvern tímann heyrði ég að sykur væri eitur. Gleðilegan öskudag!

Páll Friðriksson, ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir