Ef ég segi ekki Birta þá talar Stjáni minn aldrei við mig aftur… / ÁRNI ÞÓR

Árna Þór Þorbjörnsson kannast örugglega margir við en hann plokkaði bassa um árabil með hinum rómuðu Herramönnum og nokkrum undanförum þeirra. Í Herramönnum var Árni ásamt bekkjarbræðrum sínum Kristjáni Gísla, Kalla Jóns, Svabba Helenu og Birki Guðmunds svo einhverjir séu nefndir. Árni er fæddur 1970 og alinn upp á Króknum. Hann segist ekki eiga neitt uppáhaldstímabil í tónlistinni. „Ég hlusta á tónlist frá öllum tímabilum og er þessi alræmda alæta á tónlist,“ segir Árni.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? -Ég hlusta á allan ands… Arctic Monkeys, Queens of the Stone Age, alt-J, Royal Blood og Bombay Bicycle Club eru allt bönd sem ég hef verið að hlutsa mikið á síðustu misseri.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? -Allt milli himins og jarðar. Það sem stendur þó alltaf mest með mér af því tónlistarlega uppeldi sem ég fékk er óbilandi ást foreldra minna á hljómsveit frá Liverpool; The Beatles. Þessari ást hef ég lagt mig fram um að koma til minna barna – og mér sýnist að það hafi tekist all bærilega.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Ég vildi að ég gæti sagt eitthvað mega kúl eins og Mjötviður mær eða Geislavirkir….en fyrsta platan sem ég keypti var ábyggilega Ævintýri í Maraþaraborg. Næsta plata var líklega Prince Charming með Adam and the Ants.

Hvaða græjur varstu þá með? -Græjurnar hans pabba….Kenwood spilari.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? -Syng ekki í sturtu.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? -Æi hvað heitir þarna hryllingurinn með honum Guðjóni Rúdolf….Húfan mín eitthvað….

Uppáhalds Júróvisjónlagið? -Ef ég segi ekki Birta þá talar Stjáni minn aldrei við mig aftur….

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Hræri saman í playlista með öllu sem ég hef nefnt hér að ofan og bæti einhverju góðu við með Red Hot Chili Peppers og Pixies og svo íslensku deildinni eins og Páli Óskari, GusGus og Quarashi.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -Sunday Morning með Velvet Undreground er lógíska svarið en oft verður Dave Brubeck Quartet fyrir valinu og jafnvel einhver klassík.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Erfið spurning en ætli ég færi ekki til London að sjá Red Hot Chili Peppers með vini mínum Árna Mar.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? -Mig hefur nú aldrei dreymt um að vera einhver annar en ég er en ég hef haft barnslega aðdáun á John nokkrum Lennon frá unga aldri. Þeir Paul og John hafa skiptst á að vera uppáhalds í langan tíma.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? -Tvær sem koma til greina….Sgt. Peppers Lonley Hearts Club Band og The White Album. Fólk má velja.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? -Nota ekki iTunes lengur þannig að þetta er hætt að virka. En mest notuðu playlistarnir mínir á Spotify eru Iceland Airwaves 2014, Sound City – Studio 606, Classical Music at the Cinema og Classical Essentials.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir