Sama orð, mismunandi skilningur - Áskorandi Anna Elísabet Sæmundsdóttir

Það var mikil lífsreynsla þegar ég fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna árið 1984 þá 17 ára gömul og margt sem var öðruvísi en ég átti að venjast. Ég lenti hjá yndislegu fólki og gekk sambúðin alveg ágætlega fyrir sig þrátt fyrir einhverja árekstra sem eðlilegt er en þegar fólk opnar heimili sitt fyrir skiptinema þá þarf skiptineminn að beygja sig undir reglur á nýja heimilinu.

Ég var kannski ekki alveg undirbúinn fyrir agann sem gilti á heimilinu en í honum fólst m.a. rík tilkynningaskylda um allar ferðir manns og útvistarreglur sem ég bara skildi stundum ekki.

Ég var bara nokkuð góð í ensku og lenti sjaldan í misskilningi vegna tungumálsins. Það var þó í eitt skipti sem ég var að spjalla við samnemendur um Ísland að einhverra hluta vegna fór ég að tala um Greenpeace. Sumarið áður en ég fór út höfðu hvalveiðar og aðgerðir hvalafriðunarsinna verið áberandi í fjölmiðlum á Íslandi og mikið rætt um hvernig þessar aðgerðir gætu haft áhrif á sölu á íslenskum fiski erlendis og þar með á efnahag þjóðarinnar. Sem sagt ég læt þarna falla nokkur miður falleg orð um Greenpeace og hef líklegast verið eitthvað áköf í ummælum mínum. Ég man að samnemendur horfðu á mig skringilega en svo sagði einn í hópnum að hann skyldi bara ekki hvernig grænar baunir (green peas) gætu haft svona mikil áhrif á mig.

Þetta tvennt, þ.e. útivistarreglur og Greenpeace minna mann á að skilningur og upplifun á aðstæðum er yfirleitt háð samhengi hlutanna. Sem unglingur á Sauðárkróki þá upplifði ég mikið frjálsræði þar sem allir unglingar voru út um allar trissur án þess að láta kóng né prest vita um fyrirætlanir sínar. Enda Skagafjörður nokkuð öruggt umhverfi þar sem hættur í umhverfinu eru margfalt minni en í stórborg í Bandaríkjunum og því ekki eðlilegt að bera það umhverfi saman. Og varðandi Geenpeace þá held ég að fáir hafi vitað af tilvist þeirra og því eðlilegt að vera hissa á þessum undarlega Íslendingi sem æsti sig yfir grænum baunum.

Öll samskipti og skilningur er háð upplifun okkar á aðstæðum og hvaða reynslu við höfum í farteskinu. Þannig má skilja orð, setningar eða hegðun á mismunandi hátt, allt eftir því hver reynsla okkar er eða hvernig við lesum í hlutina. Sem dæmi þá þurfti ég um daginn að láta framkvæma ákveðið verk og sagði að lagfæringin ætti að vera fyrir janúar. Ég meinti að það ætti að gilda Í janúar en sá sem framkvæmdi verkið taldi að þetta ætti að gerast áður en janúar gengi í garð. Sama orð, mismunandi skilningur. Við gerum ráð fyrir að aðrir hafi sömu þekkingu eða reynslu sem við höfum en allir hafa einstaka reynslu og því ekki hægt að gera ráð fyrir að við upplifum eða skiljum hlutina eins. Merkilegt nokk!

Ég skora á vinkonu mína hana Bryndísi Þóru Bjarman að taka næsta pistil.

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir