Samfélagsvegir – sveitalínan

Með sam­stilltu átaki tókst okk­ur Íslend­ing­um að stór­efla og bæta fjar­skipti í sveit­um lands­ins. Rann­sókn sem gerð var fyr­ir fjar­skipta­sjóð dró fram hversu mikla þýðingu það verk­efni hef­ur haft fyr­ir lífs­gæði, tekju­mögu­leika og byggðafestu í dreif­býli um land allt.

Næsta skref sem, reynd­ar er löngu tíma­bært að farið verði í, er að end­ur­bæta veg­ina í dreif­býl­inu. Fátt efl­ir bet­ur og stækk­ar at­vinnu- og þjón­ustu­svæði dreifðra byggða en góðir veg­ir. Sveit­ar­fé­lög hafa sam­ein­ast og stækkað. Góðir áfang­ar hafa náðst í vega­bót­um, en það má gera bet­ur. Fyr­ir fólkið, íbú­ana, skipta greiðar sam­göng­ur höfuðmáli. Frá mörg­um heim­il­um í sveit­um er sótt at­vinna og börn­um er ekið til skóla og er oft um lang­an og stund­um vond­an veg að fara. Stór­um hluta af skóla­deg­in­um get­ur í sum­um til­vik­um verið varið í bíl. Á flest­um bæj­um er at­vinnu­starf­semi, bú­skap­ur, ferðaþjón­usta, sem þarf að reiða sig á góða vegi.

Fátt skipt­ir meira máli til að sækja enn frek­ar fram um efl­ingu sveit­ar­fé­laga og sam­fé­laga en betri sam­göng­ur og góðir veg­ir. Lík­lega má segja að viðhorf fólks til frek­ari sam­ein­ing­ar sveit­ar­fé­laga snú­ist um úr­bæt­ur á veg­um – að það sé til ein­hvers að efla byggðina með raun­veru­leg­um aðgerðum sem bæta bú­setu­skil­yrði.

Fjár­magn til end­ur­bóta á tengi­veg­um hef­ur auk­ist veru­lega á kjör­tíma­bil­inu sem nú er að renna sitt skeið. Það hef­ur þokast af stað – og með því auk­ist bjart­sýni um úr­bæt­ur. Ein af áhersl­um Sjálf­stæðis­flokks­ins fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar er um fram­kvæmd­ir við tengi­vegi.

En það er langt í land að nauðsyn­leg­ar lag­fær­ing­ar tengi­vega séu í sjón­máli fyr­ir mörg byggðarlög. Til þess þarf nýja hugs­un. Ekki síst til að fólk, við íbú­arn­ir, öðlumst trú á að eitt­hvað muni ger­ast.

Tvö­föld­un fjár­magns til tengi­vega var bar­áttu­mál okk­ar margra á kjör­tíma­bil­inu. Við höf­um lagt allt kapp á að sú aukn­ing verði til lengri tíma en nú er áætluð.

En við þurf­um nýja hugs­un

End­ur­skoða þarf í þessu sam­bandi flokk­un vega. Víða eru tengi­veg­ir í raun stofn­veg­ir. Aðrir tengi­veg­ir eru í raun ferðaveg­ir, veg­ir sem eru ferðaþjón­ust­unni mik­il­væg­ir. Ferðaþjón­usta er sú at­vinnu­grein sem mest hef­ur bætt af­komu dreifðra byggða und­an­far­in ár. Við þurf­um að end­ur­meta flokk­un vega. Setja tengi­vegi í tvo flokka: Tengi­veg­ir eitt verði þeir um­ferðarþungu sem eru í raun stofn­veg­ir byggðar­inn­ar. Tengi­veg­ir tvö verði um­ferðarminni veg­ir, sem eru byggðinni mik­il­væg­ir og skóla­börn, at­vinnu­sókn og at­vinnu­rekst­ur sveit­anna reiða sig á. Þá vegi mætti kalla sam­fé­lags­vegi. Með slíkri flokk­un fær­ist sjón­ar­hornið á fá­farn­ari vegi, þungi umræðu og ákv­arðana­töku verður ekki ein­göngu um ferðamanna­vegi og aðra fjöl­farna vegi.

Ef við horf­um til átaks um tengi­vegi tvö má enn og aft­ur ræða um kröf­ur til þeirra og kostnað við end­ur­bæt­ur. Það ættu ekki all­ir veg­ir að þurfa fulla breidd eða aðra þá þætti sem eru kostnaðarsam­ir. Enda ekki um um­ferðarþunga vegi að ræða. Tengi­veg­ir tvö eru sam­fé­lags­veg­ir, þar sem við end­ur­bæt­um til lengri tíma vegi sem í dag eru oft­ar en ekki mal­ar­veg­ir með lág­marks- eða næst­um engu viðhaldi.

Sam­fé­lags­vegi á að end­ur­bæta í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög. Lands­hluta­sam­tök sveit­ar­fé­laga inn­an NV-kjör­dæm­is hafa und­an­far­in ár lagt mikla vinnu og umræðu í sam­göngu­mál. Á þeirra borði liggja grein­ing­ar og for­gangs­röðun. Það er mik­il­vægt að virkja þeirra þekk­ingu á nærsam­fé­lög­um sín­um.

Sam­fé­lags­vegi í tengi­vega­flokki tvö má hugsa sem næsta átak okk­ar í byggðafestu – rétt eins átak í lagn­ingu ljós­leiðara var – sem tókst. Þó ekki með fjár­magni sveit­ar­fé­lag­anna eða íbúa held­ur með því að skipu­lags­vald þeirra og þekk­ing á þörf­um sé hluti af verk­efn­inu. Það ætti til að mynda ekki að vera neitt því til fyr­ir­stöðu að sveit­ar­fé­lög verði á ein­hvern hátt hluti af átak­inu sé það komið á skrið og fjár­mun­ir tryggðir til lengri tíma. Þau ættu, mögu­lega í sam­starfi við verk­taka sem velj­ast til fram­kvæmda, að flýta sem mest fram­kvæmd­um, sé þess kost­ur.

Um fjár­mögn­un mætti horfa til nokk­urra þátta. Gleym­um ekki að fyr­ir dyr­um stend­ur að end­ur­skoða skatt­lagn­ingu um­ferðar. Nú­ver­andi fjár­mögn­un bygg­ist á eldsneyt­is­skött­um en ekki notk­un veg­anna. Nýir orku­gjaf­ar í sam­göng­um hafa ekki að sama skapi lagt til vega­gerðar, þann vink­il þarf að end­ur­hugsa. Hvaða form sem verður á end­ur­skoðaðri skatt­lagn­ingu koma notk­un­ar­gjöld einnig til skoðunar. Nú er ákveðið að sum­ar sam­göngu­fram­kvæmd­ir verði að hluta fjár­magnaðar með slík­um gjöld­um.

Nú­ver­andi mal­ar­veg­ir þurfa viðhald, hefl­un og ryk­bind­ingu. Ein­staka sinn­um með of­aníb­urði. Mætti ekki horfa til að verja því fjár­magni til fjár­mögn­un­ar á end­ur­bót­um sam­fé­lags­vega þannig að sí­end­ur­tek­inn kostnaður vegna hefl­un­ar og ryk­bind­ing­ar verði nýtt­ur á sam­fé­lags­lega hag­kvæm­ari hátt þannig að við losn­um við reglu­legt viðhald í stað þess að leggja bundið slitlag?

En hvernig sem við röðum sam­an slíkri fjár­mögn­un þýðir átakið að horfa verður til veru­legra fjár­fram­laga frá hinu op­in­bera meðan á átak­inu stend­ur. Hér er sett fram sú hug­mynd að leggja til einn millj­arð á hvert svæði vega­gerðar í land­inu sem væri beint til þessa mik­il­væga átaks til að efla byggðir um landið. Það er ein­mitt mik­il­vægt að við ræðum slíkt átak – á sama tíma og ríki og sveit­ar­fé­lög á höfuðborg­ar­svæðinu hafa ákveðið að ráðast í sam­göngu­átak þar. Sam­svar­andi átak fyr­ir sveit­ir lands­ins er því eðli­legt fram­hald. Allt miðar að því að efla innviði og bæta lífs­skil­yrði íbú­anna. Það sem heit­ir höfuðborg­arsátt­máli er fyr­ir­mynd­in að átaki í end­ur­bót­um sam­fé­lags­vega. Mætti nefna það sveitalín­una. Rétt eins og með höfuðborg­arsátt­mál­ann má horfa til þess að losa um eign­ir rík­is­ins til að fjár­magna átakið.

Átakið er fjár­fest­ing til auk­ins hag­vaxt­ar. Það er mik­il­vægt að halda áfram að fjár­festa í betri sam­göng­um, því rétt eins og ljós­leiðara­verk­efnið hef­ur þegar sannað, þá eykst hag­sæld í kjöl­farið.

Við erum ekki í vafa um að átakið get­ur skipt sköp­un um vilja og viðhorf íbúa til sam­ein­ing­ar sveit­ar­fé­laga og efl­ing­ar byggðar.

Sveitalín­an er málið!

Höfundar eru Haraldur Benediktsson alþingismaður og Magnús Magnússon sóknarprestur og sveitarstjórnarfulltrúi. Þeir skipa 2. og 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir