„David Gilmour var, er og verður uppáhalds“ / SVABBI

Að þessu sinni er það Svavar Sigurðsson mjólkurfræðingur hjá Mjólkursamlagi KS sem svarar Tón-lystinni. Svabbi er fæddur 1969, sonur Helenu Svavarsdóttur og Reynis Barðdal, fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og segist heimakær með afbrigðum.

Verkfæri Svabba í tónlistinni er gítar og spurður um helst tónlistarafrek svarar hann: „Hljómsveitin Herramenn á sínum tíma, það var nú alveg nægilegt fyrir mig.“

Hvaða lag varstu að hlusta á? Limp Bizkit og Break Stuff. Það er nú lítil jákvæðni í því en er ekki lýsandi fyrir skapið sem ég er í þegar að þetta er ritað. Engu að síður asskoti gott lag.

Uppáhalds tónlistartímabil? Æi nú er ég í klemmu. Ég hef í gegnum tíðina reynt að fylgjast með því  sem er í gangi hverju sinni og hef gaman af því öllu. En auðvitað hugsar maður til unglingsáranna þegar að þessi spurning kemur upp, hinsvegar þegar öllu er á botninn hvolft þá er tónlistin frá þeim tíma ekkert betri eða verri en hún er nú eða fyrr.  [Pólitíkus hefði ekki náð að skrifa loðnara svar]

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Já, nú er það ungur listamaður frá Húsavík sem fangað hefur athygli mína undanfarið. Sá heitir Axel Flóvent – flottur strákur þar á ferð.  Eins ung söngkona, Ellen King. Svo hef ég af einhverjum ástæðum dottið í að hlusta á AC/DC núna undanfarið, kann ekki að útskýra hvers vegna.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Aðallega dægurlög á þeirri merku Rás 1 – gömlu gufunni.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Utangarðsmenn. 

Hvaða græjur varstu þá með?  Gamla stofu garganið mömmu og pabba, sem dugði engu að síður á þeim tíma.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Ætli það hafi ekki verið gamla vísnaplatan sem Björgvin Halldórs og Gunni Þórðar gerðu á sínum tíma ásamt öðrum.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ef ég heyri einhvern væla Maístjörnuna þá spretta fram grænu bólurnar á mér. Fæ hroll við það eitt að skrifa nafnið.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Gleðibankinn, ekki spurning. Mér finnst við eiga að senda hann aftur.  Svo er það náttúrulega ABBA, það gerðist eitthvað magnað þar.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð?  Diskó friskó klikkar ekki. Nema sem ádeila á diskóið sem þetta lag átti að vera,  það klikkaði alveg svakalega.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Þögn og svo surgið í kaffikönnu – það er best.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Pink Floyd, hvar sem er og taka konuna mína, hana Evu, með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Ætli það hafi ekki verið eitthvað með hljómsveitinni Saga, Duran Duran, klárlega ekki Wham!, en pottþétt Pink Floyd

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? David Gilmour úr Pink Floyd.  Var, er og verður uppáhalds. 

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Pink Floyd. The Wall og The Dark Side of the Moon.  Get ekki gert upp á milli þessara stórverka þeirra.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum þessa dagana?
Ane Brun – Big in Japan
Limp Bizkit - Break Stuff
Massive Attack - Karmacoma
Twenty One Pilots –Stressed Out
AC/DC – Shoot to Thrill
Duran Duran –Lay Lady Lay

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir