Skagafjörður á tímamótum

Íbúar Skagafjarðarhéraðs ganga nú til kosninga, sameinað í einu sveitarfélagi. Það mun því skipta máli að hafa í forsvari reynslumikið og öflugt sveitarstjórnarfólk. Sem hefur sýnt að það nær árangri.

Sjálfstæðisflokkurinn í Skagafirði býður fram öflugan hóp fólks í sveitarstjórnarkosningum 14. maí nk. Framboðslistinn er góð blanda reynslu og annarra sem stíga nú fram í fyrsta sinn. Þingmenn og sveitarstjórnarfólk eiga í miklu og nánu samstarfi og er mikilvægt að góð og öflug tengsl séu á milli okkar. Það hefur sannarlega verið og fyrir það er þakkað.

Skagafjörður er eitt mesta matvælahérað landsins. Á ófriðartímum, sem við því miður upplifum nú, kemur mikilvægi matvælaframleiðslu vel í ljós. Því mun það skipta miklu að við sem störfum í stjórnmálum gerum okkur ljóst að öll umgjörð matvælaframleiðslu, starf bænda, fiskveiðar og vinnsla afurða, verður að vera í lagi. Það mun reyna á þetta á næstu mánuðum og misserum. Því mun skipta máli að eiga sterkt og öflugt forustufólk í Skagafirði. Fjöregg Skagafjarðar á allt undir í því. Óvíða á landinu mun hagsæld íbúa ráðast meira af því hvernig tekst til að skapa matvælaframleiðslu og iðnaði rekstrarskilyrði sem stjórnvöld á annað borð geta haft áhrif á.

Sjálfstæðismenn í Skagafirði hafa sýnt að þeir hafa kraft og framsýni til að vinna að því að bæta búsetuskilyrði, efla skólastarf og menningu. Mikil uppbygging undanfarin ár, stærri áfangar í augsýn eins og nýtt verknámshús fyrir Fjölbrautaskólann. Efling og varðstaða um háskólann á Hólum, hefur ekki síst verið undir forustu Sjálfstæðisflokksins.

Það skiptir ekki síst máli fyrir ríkissjóð að eiga öflugt forustufólk í héraði. Við þingmenn kjördæmisins höfum lagst á árar með sveitarstjórn fyrir að koma hitaveitustofnlögn frá Langhúsum í Fljótum að Hrolleifsdal. Það er mikil framkvæmd, um 300 milljónir í stofnkostnaði. Á þessu ári veitti Alþingi á fjárlögum, 72,5 milljónum í verkið og mikilvægt að tryggja að sambærilegt framlag verði á næsta ári. Í heild munu framkvæmdir við hitaveitu í Skagafirði, að þessu verki loknu, skila 90 milljónum árlega í lægri útgjöld ríkissjóðs til niðurgreiðslu á raforku til húshitunar. Það eru miklir fjármunir til lengri tíma fyrir ríkissjóð.

Við skorum á kjósendur í Skagafirði að veita framboði Sjálfstæðisflokksins öflugt umboð í kosningum 14. maí, Skagafirði til heilla.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson þm NV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir