Skólabílinn úr malardrullunni

Um 1.800 börn og ungmenni víða um landið sækja grunnskóla í sínu sveitarfélagi með skólaakstri, hvern skóladag, allt skólaárið. Vegalengdirnar eru mismunandi og vegirnir misgóðir. Á sumum leiðum er fyrir fjölda barna um tugi kílómetra að fara hvora leið og víða skrölt á holóttum malarvegum yfir rysjótta vetrarmánuði.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar vegaframkvæmdum um landið er forgangsraðað í samgönguáætlun eigi að líta sérstaklega til ástands vega þar sem er skólaakstur. Þegar ég tók sæti sem varaþingmaður á Alþingi haustið 2018 spurði ég samgönguráðherra nánar út í skólaakstur innan hvers sveitarfélags með tilliti til fjölda nemenda, heildarkílómetrafjölda, lengd malarvega og fjölda einbreiðra brúa á hverri skólaakstursleið.

Langur akstur á vondum vegum
Á meðfylgjandi mynd má sjá yfirlit sem unnið er upp úr svari ráðherra fyrir skólaárið 2018-2019, skipt eftir kjördæmum. Norðvestur- og norðausturkjördæmi skera sig nokkuð frá öðrum kjördæmum. Fjöldi barna í skólaakstri er þó nokkur, vegalengdirnar miklar og hlutfall malarvega hátt. Hæsta hlutfall malarvega er í NA en í NV eru flestar einbreiðar brýr og vegalengdirnar mestar að meðaltali á hvern nemenda.

 

Ef litið er sérstaklega til skólaakstursleiða innan sveitarfélaga í Norðvesturkjördæmi sést að víða er verk að vinna. Má þar sérstaklega nefna tengivegi í Borgarfirði, Dölum og Húnavatnssýslum.

Tölurnar eru vissulega þriggja ára gamlar og sitthvað hefur áunnist í vegamálum á þeim tíma en það breytir ekki mikið heildarmynd skólaaksturs á landsbyggðinni og stöðunni í dag á milli kjördæma eða sveitarfélaga. Fjöldi barna er daglega í löngum skólaakstri á vondum og sumstaðar hættulegum malarvegum.

Áherslur í samgönguáætlun 2020-2035
Gildandi samgönguáætlun var samþykkt á Alþingi í júní í fyrra. Þar kennir ýmissa grasa enda þörfin fyrir bættar samgöngur um allt land mikil. Peningar ríkissjóðs eru þó takmarkaðir og því þarf að forgangsraða vegaframkvæmdum eins vel og hægt er á grundvelli málefnalegra markmiða og eftir þeim áherslum sem stjórnvöld setja sér. Þannig er stefnt að greiðum, öruggum og hagkvæmum samgöngum sem þjóni íbúum og atvinnulífi um land allt.

Það vekur athygli mína að hvergi í samgönguáætlun er vikið sérstaklega að skólaakstri barna nema það sem fellur almennt undir markmiðið að stytta ferðatíma innan skólasóknarsvæða. Þess er þó getið á einum stað undir markmiðinu um öruggar samgöngur að hefja eigi vinnu „við að greina stöðu barna og ungmenna í samgöngum með það að markmiði að stefnumótun í samgöngumálum taki mið af þörfum þeirra“. Ég veit ekki hvort sú vinna er hafin eða hvernig henni miðar áfram en skólaakstur fjölda barna um land allt hlýtur augljóslega að vega þar þungt.

Klárt forgangsmál
Fái ég til þess umboð mun ég leggja áherslu á það á næsta kjörtímabili að skólaakstur barna verði að sérstöku forgangsmáli í nýrri samgönguáætlun með það skýra markmið að auka öryggi skólaaksturs með því að fækka hratt kílómetrum á malarvegum og yfir einbreiðar brýr.

Það er einfaldlega ekki hægt að leggja það á börn að þurfa jafnvel alla sína grunnskólagöngu að hristast tímunum saman dag hvern á holóttum og aurugum malarvegi til að komast í skólann.

Teitur Björn Einarsson,
Höfundur er búsettur í Skagafirði og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir