Við skulum ganga suður með sjá

Hannes Pétursson frá Sauðárkróki. MYND AF NETINU
Hannes Pétursson frá Sauðárkróki. MYND AF NETINU

Sunnudaginn 12. október kl. 15 verður haldið málþing í Miðgarði í tilefni þess að 70 ár eru síðan fyrsta ljóðabók Hannesar Péturssonar kom út. Bókin heitir því yfirlætislausa nafni Kvæðabók og kom út árið 1955. Hún var gefin út í 1.000 eintökum í upphafi og þau eintök ruku út og það var prentað annað upplag í snatri en fjöldi þeirra eintaka var aldrei gefinn upp.

Viðtökurnar sem Kvæðabók fékk þarna fyrir sjötíu árum voru frábærar og eftir að bókin kom út „linnti fagnaðarlátunum ekki, og þau standa enn“ segir á einum stað. Það eru líka fjölmargir, bæði ljóðskáld og ljóðaunnendur, sem vitna um að þessi bók hafi haft mikil áhrif á sig. Hannes var að vísu búinn að gefa upp boltann með því að birta ljóð í bókinni Ljóð ungra skálda, sem kom út árið 1954. Í þeirri bók voru sjö ljóð eftir Hannes og það má segja að þar hafi hann slegið í gegn á svipstundu og lét Steinn Steinarr hafa eftir sér „að hann hefði aldrei vitað Íslenskan mann á hans aldri yrkja jafn vel“.

Hannes hefur gefið út ellefu ljóðabækur og kom sú síðasta, Haustaugu, út árið 2018. Hann hefur líka skrifað fjölda annarra bóka, bæði fræðibækur, ferðabækur, sagnaþætti og minningabækur. Hann hefur líka skrifað mikið í Skagfirðingabók og var þar í ritstjórn fyrstu árin og er heiðursfélagi í Sögufélagi Skagfirðinga.

Það má því segja með sanni að það sé góð ástæða til að slá upp smá afmælisveislu í Miðgarði. Þar flytja erindi Sölvi Sveinsson, Silja Aðalsteinsdóttir, Egill Helgason, Eyþór Árnason og Krisján B. Jónasson. Ljóðum skáldsins verður síðan blandað inn í erindin og það er einvalalið úr héraði sem mun lesa: Iðunn Kolka Gísladóttir, Sara Regína Valdimarsdóttir, Sigríður Kristín Jónsdóttir, Lilja Sigurlína Pálmadóttir, Ólafur Sigurgeirsson, Ólafur Atli Sindrason og Atli Gunnar Arnórsson. Einnig mun Helga Rós Indriðadóttir syngja þrjú lög við texta skáldsins. Píanóleikari er Daníel Þorsteinsson. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

/fréttatilkynning 

Fleiri fréttir