Staðalímyndir ungs fólks
Ég horfði á Kastljós þátt í vikunni þar sem fjallað var um konu sem hafði lent í hjartastoppi með þeim afleiðingum að hún missti allan mátt í höndum og fótum og er því í hjólastól. Ástæðan fyrir því að þetta gerðist var að hún var haldin sjúkdómnum átröskun, hún tók vatnslosandi lyf sem var í of miklu magni og hjartað hennar bókstaflega gafst upp.
Inn á www.geðhjalp.is má sjá útskýringu á sjúkdómnum átröskun:
„Það eru aðallega ungar konur sem þjakaðar eru af átröskunum, en ekki má líta framhjá því að brenglun á líkamsímynd kemur einnig fram hjá ungum mönnum. Átraskanir hafa alvarleg áhrif á lífsgæði fólks og geta jafnframt verið lífshættulegar. Átraskanir einkennast af alvarlegri truflun á matarvenjum. Átraskanir verða ekki læknaðar með lyfjum eingöngu því þótt ytri einkenni sjúkdómsins séu greinileg, t.a.m. í þyngdartapi, eru orsakirnar taldar sálrænar. Átraskanir hafa þau andlegu áhrif að manneskjan upplifir mikinn kvíða, vanlíðan og þunglyndi, sem rætur geta átt í brenglaðri líkamsmynd. Einnig verða sjúklingar helteknir af hugsunum um mat og þyngd. Líkamlegar afleiðingar átraskana eru einnig mjög alvarlegar, t.d. eins og nýrnaskemmdir, beinþynning og hjartsláttatóregla.“
Eins og kemur fram hér að ofan þá er þetta mjög alvarlegt ástand sem einstaklingar geta sett sig í. Það eru mun fleiri einstaklingar sem eru haldnir þessum sjúkdómi en við gerum okkur grein fyrir, sjúkdómurinn er falinn og það er nauðsynlegt að vera með opin augun gagnvart honum.
Maður spyr sig eftir að hafa heyrt svona skelfilega sögu: „Af hverju gerði hún þetta?“
Í fjölmiðlum birtast ákveðnar staðalímyndir kvenna, myndir af ungum flottum konum sem eru svo grannar og með flottar línur að það er magnað. Það stendur hvergi hversu miklar aðgerðir í Photoshop eða í öðrum forritum eru gerðar og því eru breytingarnar ekki augljósar fyrir öllum. Myndirnar senda skilaboðin: „Ég á að vera mjó,“ til hinnar venjulegu ungu konu.
Ég hugsa mest til ungu kynslóðarinnar, það er mikið óöryggi á kynþroskaskeiði hjá unglingum og þau sem finna fyrir mesta óörygginu reyna að fara allar mögulegar leiðir til þess að fitta inn í hópinn og vera jafn flottir og hinir.
Þrátt fyrir að mikið sé talað um stúlkur þegar kemur að átröskun þá eru strákar ekkert síðri til þess að fá sjúkdóminn, það fer alveg jafn mikið fyrir brjóstið á þeim að sjá eldheita fótboltagæja með sixpack á einhverjum auglýsingaskiltum.
Það er vert að vera vökull og fylgjast með unglingunum sínum þegar kemur að þessum málum, og þá þurfa allir að hjálpast að.
Pössum unga fólkið?
Stefanía Gunnarsdóttir nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.