Það er aðeins innanbúðar titringur hjá einu merkasta stórveldi knattspyrnunnar, en ekkert til að hafa áhyggjur af :: Liðið mitt – Jón Örn Stefánsson

Jón Örn í búning með forláta könnu sem hann fékk að gjöf frá vini sínum.
Jón Örn í búning með forláta könnu sem hann fékk að gjöf frá vini sínum.

Hilmar Þór Ívarsson, framleiðslustjóri Dögunar rækjuvinnslu skoraði á samstarfsfélaga sinn, gæða og öryggisstjórann Jón Örn Stefánsson að svara spurningum í Liðið mitt hér í Feyki. Jón Örn býr á Blönduósi ásamt eiginkonu sinni Þórdísi Erlu Björnsdóttir, hársnyrtimeistara og þremur drengjum, þeim Birni Ívari, Stefáni Frey og Guðjóni Óla.

Fjölskyldan hefur búið á Blönduósi í hartnær 22 ár hvar Þórdís Erla er fædd og uppalin. Jón Örn er hins vegar fæddur og uppalinn í „Las Vegas Norðursins“ Skagaströnd. Liverpool er uppáhaldslið Jóns Arnar í Enska boltanum og hefur verið eins og lengstu menn muna.

„Ég hef haldið með Liverpool frá unga aldri, byrjaði að fylgjast með þeim þegar Ian vinur minn Rush hafði hafið ferilinn hjá stórveldi Liverpool eftir 1980, og Bjarni Fel var á hátindi ferilsins hjá íþróttadeild Ríkissjónvarpsins.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði?
-Já, ég er nú hræddur um það. Sérstaklega núna þegar það er smávægilegur titringur innanbúðar hjá stórveldi knattspyrnunnar, en það er ekkert til að hafa áhyggjur af, en það hefur ekki heyrst í mörgum í ansi langan tíma.

Kaffistofuspjallið í vinnunni einkennist æði oft að hluta til af úrslitum helgarinnar í Enska boltanum. Svo þegar upp koma alveg sérstök úrslit eins og sorglegur 7-2 sigur Aston Villa á Liverpool í október 2020 virðist vera sem það muni aldrei gleymast og maður minntur á það nærri því vikulega. En til gamans má nefna að ónefndur starfsmaður (Solla vinkona mín) hafði mikið fyrir því að merkja bílinn minn með Aston Villa merkinu eftir þann leik.
Þegar ég var í Fisk Seafood landvinnslu, var einmitt það sama uppi á teningnum og mátti oft lesa úrslit helgarinnar úr andlitum fólks þegar mætt var til vinnu eftir helgina.
Svo má segja að það hafi verið daglegt brauð þegar ég var á sjónum fyrir mörgum árum síðan að lenda í harðvítugum deilum sem tengdust Enska boltanum, sérstaklega voru þær harðar við stuðningsmenn litlu liðanna í Manchester borg.

Björn Ívar, Stefán Freyr & Guðjón Óli komnir í
Liverpool fatnaðinn og klárir í leik heima í stofu.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar?
-Það koma margir upp í hugann, en þeir Gerrard, Carragher, Torres og Ian Rush voru mikið í uppáhaldi hjá mér, Suarez var á sérstökum stalli en beit alla af sér áður en hann fór til Barcelona.
Minn uppáhalds maður fyrr og síðar er samt hinn geðþekki og skemmtilegi Norðmaður, Jón Árni Riise, með baneitraðan vinstri fót og ávallt til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu?
-Það er náttúrulega alveg skammarlegt að segja frá því að ég hef aldrei farið á leik með Liverpool, en það verður að segjast að það getur myndast helvíti skemmtileg stemmning þó maður sé bara heima í stofu að hlusta á Hödda Magg fara á kostum með strákunum mínum öllum.
En þetta stendur nú til bóta vonandi og er fyrirhugað að fara feðgaferð á leik með Liverpool og vonandi að ná leik með stórliði Wrexham í leiðinni svona fyrst við verðum farnir af stað.
Hingað til hafa synir mínir og tengdapabbi séð um að fara á þessa leiki, ég reikna með því að slást í hóp með þeim sem fyrst.
Svo er nú gaman að segja frá því að ég hef reyndar farið með tvo eldri strákana mína í Liverpool fótboltaskóla, en það var reglulega skemmtilegt.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu?
-Já, það eru til treyjur með helstu stjörnum liðsins á allan karlpeninginn á heimilinu, treflar, fánar, könnur, skjaldamerki, Liverpool Gin og hvað eina.

Þórdís Erla laumar sér yfirleitt í bláan fatnað
þegar Liverpool leikur er í stofunni, helst
Chelsea bolinn sinn sem týndist reyndar óvart.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið?
-Svona heilt yfir gengur það vel, strákarnir mínir þrír halda allir með Liverpool eins og pabbi þeirra, við erum með góðan stuðning í tengdapabba sem hefur haldið með Liverpool frá stofnun liðsins en hann fermdist einmitt um það leyti sem klúbburinn var stofnaður.
Svo er það hins vegar verra með hana Þórdísi mína, sem er að einhverju leyti haldin einhverri fortíðarhyggju og styður Chelsea vegna þess að Eiður Smári lék með þeim fyrir lifandi löngu og henni fannst hann svo sætur. Í ofanálag við þetta allt saman virðist sem svo að Þórdís mín geri algjörlega í því að klæðast bláum fatnaði þegar Liverpool er að keppa og meira að segja fagnar óspart ef skorað er hjá Liverpool.
En það hafa margir sinn djöful að draga, ég hef hana Þórdísi mína.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag?
-Nei, ég hef ekki skipt um uppáhaldsfélag en auðvitað heldur maður alltaf líka með liðinu sem spilar á móti Manchester United.

Uppáhalds málsháttur?
-Það sem hefur aldrei gerst áður, getur alltaf gerst aftur.

Björn Ívar & Stefán Freyr fóru í Liverpool
skólann sem var í Mosfellsbæ.

Einhver góð saga úr boltanum?
-Eins og fram hefur komið, þá hef ég ekki farið á leik á enskri grundu enn sem komið er. Ég hef þó mætt nokkuð samviskusamlega á bæði landsleiki Íslands á Laugardalsvellinum, með stórliði Hvatar Kormáks í þriðju deildinni og náttúrulega Tindastól í fjórðu deildinni.

Við fjölskyldan fórum saman á Laugardalsvöllinn 2014 þegar Hollendingar voru kjöldregnir á íslenskri grundu, úrslit leiksins voru 2-0 fyrir stórasta landi í heimi.
Við sátum nálægt vellinum í nýju stúkunni og þó ég segi sjálfur frá hefur kappið oft borið fegurðina ofurliði þegar kemur að því að styðja við bakið á mínum mönnum hvort sem um ræðir Ísland, Liverpool, Hvöt eða Tindastól.
En allavega, þarna vorum við feðgarnir í góðum gír ásamt Þórdísi minni, mömmu og litlu systir minni, sem voru heldur kurteisari í fasi og framkomu, þegar svo skemmtilega vildi til að Róbert nokkur Van Persie átti leið hjá og í kjölfarið var dæmt innkast og elsti sonur minn byrjar að kyrja „Who the fuck is Van Persie“ aftur og aftur við skemmtilegt og grípandi lag.
Mamman og amman sussuðu á barnið, sem lét sér ekki segjast og við hinir fórum að taka hraustlega undir ásamt nokkuð stórum hóp barna og miðaldra karlmanna sem var á þessu svæðinu.
Það var svo rúsínan í pylsuendanum þegar Róbert þessi laumaði til okkar „Fuck you“ merki sem vakti mikla kátínu viðstaddra og efldi okkur frekar í því að gala á hann.
Svo þegar draga tók úr hávaðanum, sagði Þórdís mín við Björn okkar: „Þú verður að vera kurteis Björn minn.“ Þá sagði Björn: „Mamma, hann gaf okkur fuck you merki og þú skammaðir hann ekki neitt.“

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum?
-Mig langar að skora á vinkonu mína hana Lee Ann Maginnis, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Tindastóls.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi?
-Það hvarflar ekki að mér að gera síðasta leik Liverpool og Manchester United að umræðuefni og eða spyrja út í hann, en eins og fram hefur komið vann Liverpool þann leik 7-0.

En ef við höfum það samt í huga, og veltum fyrir okkur varnarhlutverki liða, þá er spurningin þessi:
Hversu mikilvægur hlekkur í vörn Manchester United telur þú Harry Maquire vera? Myndir þú taka hann á launaskrá hjá Tindastól í sumar?

Guðjón Óli & Stefán Freyr að horfa á
Liverpool leik, auðvitað í búning.

Spurning frá Hilmari Þór Ívarssyni:
Loksins fór að rofa til hjá ykkur Liverpool mönnum þegar þið unnuð Man. U. 7 – 0, en nú virðist allt vera komið í sama farið aftur og menn farnir að tala um að skipta um kall í brúnni. Spurningin er því eftirfarandi: Er ekki bara best að fá Roy Evans aftur? Eitthvað gamalt og gott.

Takk fyrir góða spurningu, og er stutta svarið við spurningunni Nei, en eins og þú veist best sjálfur Hilmar, þá er ég aldrei með stutt svar við spurningu.... Ég held reyndar að Jörgen Klopp sé rétti maðurinn í áframhaldandi baráttu við peningaöflin í knattspyrnunni sem virðast vera að gleypa alla titla sem í boði eru.
En svo virðist þó vera að við séum að ná vopnum okkar aftur með meðal annars stórkostlegri frammistöðu á móti Leeds um daginn eins og frægt er orðið og mun ekki gleymast í nánustu framtíð. En Leeds stóð sig mun betur en Man U á móti Liverpool, fékk á sig töluvert færri mörk og náði meira að segja að setja eitt.
Hitt er annað að það er alltaf pláss fyrir góða menn, og ég held að mögulega væri gott að fá varnarjaxlinn Roy okkar Evans í þjálfarateymið með þýska stórmenninu Jörgen Klopp, og kanski sérstaklega ef hann verður dæmdur í bann eftir skrípaleikinn á móti Tottenham á dögunum.
Það er kannski örlítið gott að hugsa til þess að þrátt fyrir að nú sé svolítil lægð í herbúðum Liverpool, vegna þrálátra meiðslna, að þá erum við þó (þegar þetta er skrifað) í 5. sæti deildarinnar að þoka okkur upp listann.
Jörgen Klopp kemur sterkur inn í næsta tímabil og hver veit nema hann verði kominn með Roy Evans sér til halds og trausts.

Áður birst í 18. tbl. Feykis 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir