Tíminn flýgur - Áskorandinn Magdalena Berglind Björnsdóttir Blönduósi

Berglind ásamt manni sínum Auðuni Sigurðssyni. Aðsend mynd.
Berglind ásamt manni sínum Auðuni Sigurðssyni. Aðsend mynd.

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer. Þessar línur Megasar fljúga stundum um huga minn þegar mér finnst tíminn hlaupa óþarflega hratt frá mér. Já, stundum hreinlega fljúga frá mér. En einhvers staðar stendur að það þýði að manni leiðist ekki - og það get ég alveg tekið undir. Ég held að mér leiðist afar sjaldan.

Ég fór að hugsa um hvers vegna þetta væri svona - að tíminn væri alltaf floginn án þess að við neitt sé ráðið. Meira að segja í Covid-ástandi þegar hægðist á öllu og allir höfðu allt í einu svo mikinn tíma - þá hefði ég alveg getað þegið meiri tíma á köflum, t.d. til að sinna náminu sem ég skráði mig í… Kannski er bara erfitt að gera mér til geðs í þessum efnum.

Líklegasta niðurstaða mín er sú að ég hafi hreinlega áhuga á of mörgu, reyndar verður það meira að segja svo að vinnutíminn fer að þvælast óþarflega mikið fyrir áhugamálunum, þrátt fyrir að ég hafi sko mjög gaman af vinnunni minni.

Mér finnst gaman að hreyfa mig og fer mjög reglulega í gönguferðir eða í tíma hjá Erlu minni Jakobs. (Þó svo hún segi áreiðanlega að ég hafi lítið sést undanfarið ef þið spyrðuð hana). Og nú þegar við hjónin erum búin að sækja reiðhjólin úr vetrargeymslu þá nýti ég hjólið mitt ekki bara til að hjóla í vinnuna heldur líka til heilsuræktar. „Spæni“ um götur bæjarins og nágrannasveita.

Mér finnst gaman að syngja og mæti nokkuð reglulega á æfingar hjá snillingnum honum Eyþóri organista. Það er svo gott að syngja. Það að syngja hressir, bætir og kætir - ef einhver efast þá kemur hér áskorun um að mæta á söngæfingu hjá einhverjum hinna fjölmörgu kóra sem starfræktir eru á svæðinu.

Það er líka svo gaman að vinna handavinnu - að prjóna, hekla og sauma. Hannyrðir róa nefnilega hugann, ja sko nema þegar illa gengur og það þarf að rekja upp. Það hefur þveröfug áhrif - en þá þarf bara að nýta þroskann sem komið hefur með hækkandi aldri og gefast ekki upp þó móti blási. Nota þrautseigjuna sem ég vil að nemendur mínir búi yfir.

Lestur bóka er nokkuð sem allir ættu að temja sér og gera bara sem mest af og oftast. Þannig örvum við hugann, fræðumst og ferðumst til ókunnugra staða. Hittum fólk sem við myndum vilja þekkja - eða bara alls ekki! Lestur er sko bestur.

Ekki má gleyma hvað það er gaman að hitta fólk! Það er ekki ofsögum sagt að maður er manns saman. Ég trúi því að margir hlakki til tilslakana sem færri smit og fleiri bólusetningar bera (vonandi) í skauti sér.
Er ekki gaman að vera til?

Ég skora á samkennara minn, Lilju Jóhönnu Árnadóttur, að taka við keflinu - enda komin í sumarfrí frá kennslu og hvað er þá betra en að setjast við skriftir.

Áður birst í 22. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir