Torskilin bæjarnöfn -Írafell í Svartárdal

Heimsýn að Ýrarfelli haustið 1998. Í baksýn er Járnhryggur en Mælifellshnjúkur efst í horninu til hægri. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar 3. bindi, bls. 410.
Heimsýn að Ýrarfelli haustið 1998. Í baksýn er Járnhryggur en Mælifellshnjúkur efst í horninu til hægri. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar 3. bindi, bls. 410.

Þannig er þetta bæjarnafn alment ritað nú. Landnáma getur bæjarins og er það vitaskuld elzta heimildin. Þar segir þannig frá: „Hrosskell hét maðr, er nam Svartárdal allan ok Ýrarfellslönd öll með ráði Eiríks; hann nam ofan til Gilhaga, ok bjó at Ýrarfelli. Hann átti þræl þann er Roðrekr hét.“ (Landn., bls. 139).

Nafnið kemur hjer fyrir tvisvar, svo tvímælalaust hefir það verið ásetningur ritarans að skrifa það með y (ypsilon) en ekki i. Og skýringin er sjálfgefin, þegar eignarfallsmyndin Ýrar er eins á báðum stöðunum. Eftir því dregur bærinn nafn af kvenheitinu Yrr. Og að m.k. hefir höfundur Landnámabókar álitið hiklaust, að svona væri nafnið rjett, því að eignarfallið af nafni Ýrar Geirmundardóttur heljarskinns ritar hann tvisvar alveg eins. En Ýrr Geirmundardóttir mun

vera eina konan, sem nefnd er þessu nafni í fornum ritum (Landn., bls. 52 og 99). Meira að segja bendir þetta sterklega á, að Landnámuhöfundi hafi beinlínis verið kunnugt, að bærinn væri kendur við einhverja Ýrr. Nöfnin, Hrosskell og Roðrekur, eru afar sjaldgæf. Út frá því mætti álíta, að kona Hrosskels hefði líka heitið mjög fáheyrðu nafni, ef til vill Ýrr (eða dótturnafn hans). Og bærinn verið kendur við hana, eftir að Hrosskell fjell frá, en verið aðeins nefndur Fell áður. En auðvitað varð hún að lifa lengur en Hrosskell, sem að engu er ósennilegt.

En um þetta fæst engin vissa, þótt jeg telji nafnið vafalaust rjett ritað Ýrarfell (kennt við Ýrr – konu). Geta skal þess, að nafnið virðist hafa verið rjett ritað að mestu á 15. öld. Í sölubrjefi um Hjeraðsdal í Tungusveit árið 1448 er ritað Írarfell (Dipl. Ísl., V. b., bls. 25). En eftir það afbakast nafnið, að því leyti, sem e.falls merkið r fellur niður í framburði, sem oft á sjer stað á undan samhljóða með áherzlu, og þessvegna er ritað Íra- í Jarðabók Árna Magnússonar um 1700 (og síðan, sbr. Ný jarðabók, bls. 106 og almenna venju nú).

Sjá líka um þetta nafn í ritgerð Finns próf. Jónssonar, sem misskilur uppruna nafnsins (Safn t.s. Ísl. IV. b., bls. 540). Að vísu þekkist mannsnafnið Íri á einum stað (Íri – lausingi Þorsteins Egilssonar – Egilss. Skallagrímssonar, bls. 274). En af áðursögðu getur nafnið ekkert átt skylt við það – móti því vitnar Landnáma algerlega. – En rjetta nafnið er: Írarfell.

            Hvað kvenheitið Ýrr þýðir, er óvíst. Ef til vill er það skylt orðinu ýring (af úr, þ.e. köld úrkoma). Eða samstofna við fornorðið ýr, þ.e. barviðartegund (sbr. ýbogi = bogi úr ýviði. Í kenningaþulum Snorra-Eddu stendur, bls 281: „Almr, dalr, bogi, ýr og tvívíðr“). Nafnið gæti því þýtt: kona, sem fer með boga (þ.e.a.s. sem heiti á konu).

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar.

Áður birst í 6. tbl. Feykis 2020.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir