Best er þegar bæði lag og texti eru í háum gæðaflokki / FELIX BERGSSON

Að þessu sinni er það ljúflingurinn Felix Bergsson sem svarar Tón-lystinni. Felix þekkja örugglega flestir landsmenn, enda búinn að vera í sviðsljósinu frá því í eitís þegar hann söng Útihátíð og fleiri góð lög með Greifunum og síðan hefur hann verið á fullu í Popppunkti með Dr. Gunna og heilmargt fleira.

Felix býr nú í Vesturbænum í Reykjavík en bjó á Húnabraut 2 á Blönduósi. „Ég fæddist í Reykjavík en flutti 2ja ára á Blönduós þegar faðir minn Bergur Felixson hóf störf sem skólastjóri grunnskólans og mamma, Ingibjörg S Guðmundsdóttir, varð hjúkrunarfræðingur við sjúkrahúsið. Ég bjó á Blönduósi til 8 ára aldurs,“ segir Felix. Hann segist ekki lengur spila á hljóðfæri en spilaði á túbu þegar hann var lítill og var í lúðrasveit í Melaskóli. Það er því röddin sem hefur verið hljóðfærið hans í gegnum tíðina. Aðspurður um helstu tónlistarafrek segir Felix: „Ja, ætli það sé ekki að gera tvær sólóplötur í seinni tíð. Þær heita Þögul nóttin (2011) og Borgin (2014). Báðar hafa fengið prýðisdóma og viðtökur.“

Uppáhalds tónlistartímabil? Mér þykir nú ægilega vænt um 9unda áratuginn (eitís) en þá var ég unglingur og drakk í mig það sem var í gangi. Öll tónlistartímabil eiga sinn sjarma.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég er eiginlega alæta á tónlist en ég heillast mjög af þessu þjóðlagaskotna rokki sem kenna má við hljómsveitir eins og Of Monsters and Men. Ég er líka orðinn vandlátari á texta í seinni tíð og góður texti er ekki síður mikilvægur en tónsmíðin. Best er þegar bæði eru í háum gæðaflokki.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Pabbi hlustaði mikið á djass en það er ekki tónlist sem hefur heillað mig. Mamma spilaði á gítar og við sungum heilmikið og það mótaði mig eflaust.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég fór 12 ára og keypti mér plötu í Karnabæ í Austurstræti. Það var önnur breiðskífa UB40 sem þá voru mjög byltingarkenndir og að slá í gegn. Um svipað leyti eignaðist ég Geislavirka með Utangarðsmönnum og féll kylliflatur fyrir Bubba rokkstjörnu Morthens. Síðar varð ég svo einn harðasti aðdáandi Purrks Pillnikks og því mjög svekktur og sár þegar Einar Örn byrjaði að gera grin að hljómsveitinni minni, Greifunum. En það var langt síðan og hefur allt verið fyrirgefið.

Hvaða græjur varstu þá með? Úff, bara svona týpískar unglingagræjur held ég. Plötuspilara og kassettutæki.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf ? Ég man að ég fílaði Halla og Ladda alveg í botn þegar Látum sem ekkert C kom út. Mér fannst þeir bæði fyndnir og eins flottir tónlistarlega.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Your Sex Is On Fire. Algjörlega óskiljanlegt drasl.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Uppáhalds erlenda lagið er Love Shine A Light með Katarine and the Waives. Ég sveiflast mjög með uppáhalds innlenda lagið en í augnablikinu er það Núna með Björgvin Halldórssyni. Frábært lag og mjög vanmetið.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Abba og fullt af skemmtilegum júróvisjónlögum

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Björk fer oft á playlistann. Homogenic er ein besta hljómplata tónlistarsögunnar.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér?  Má ég velja tvo kosti? Þá myndi ég fara til Buenos Aires, á tónleika með U2 og taka Þóri bróður með. Hitt væri að fara til Rómar á tónleika með Madonnu og taka Baldur manninn minn með. Þetta var mjög erfið spurning, möguleikarnir eru svo margir!!

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? U2. Ég elskaði þá

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Ég vildi að ég ætti til hæfileika og þor eins og Björk. Ég hefði líka alveg verið til í að fara í skóna hans David Bowie

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út?  Ég var búinn að nefna Homogenic með Björk. Stórkostlegt verk. Mér finnst Joshua Tree með U2 líka ótrúlega flott verk. Þar var hljómsveitin á listrænum toppi. Annars er vonlaust að svara svona spurningu

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
GMF – John Grant
Piltur og stúlka – Björn og félagar
Birdhouse in your soul – They Might Be Giants
Hungry Like The Wolf – Duran Duran
Hafið er svart – Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar
Angel of Harlem – U2
(Næturljóð – Felix Bergsson)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir