Torskilin bæjarnöfn :: Úti-bliksstaðir í Miðfirði (Úti-Blígsstaðir)

Útibliksstaðir eru á austanverðu Heggstaðanesi í Miðfirði, gegnt Hvammstanga. Mynd: mapcarta.com
Útibliksstaðir eru á austanverðu Heggstaðanesi í Miðfirði, gegnt Hvammstanga. Mynd: mapcarta.com

Þetta er almennasti framburður á nafninu, en ýmsir rita þó Úti-bleiks-. Að hinu leytinu eru beztu gögn fyrir því að á 15. öld hefir bærinn verið nefndur Úti-bliks-, því þannig er nafnið ritað hvað eftir annað í brjelum (frumritum) frá árunum 1467 og 1474 (DI. V. 476 og 746). En Úti-Bleiks J. og Ný Jb. Framburðarmyndin Úti-bleiks-, hygg jeg að hafi myndast af munnmælasögu þeirri, að bleikur hestur hafi „gengið af“ á Heggstaðanesi, einhvern harðindavetur, og af honum eigi bærinn að draga nafnið.

En af áðurgreindum brjefum frá 15. öld, sýnist mega ráða, að þau munnmæli hafi ekki þekst. Hafa því munnmælin skapast eftir þann tíma, og sjálfsagt af getgátum manna um uppruna nafnsins, því ennþá eru sundurleitar tilgátur um nafnið (sjá Safn t. s. Ísl. IV. B. 450).

Jeg hygg að Úti-bliks- sje afbökun af Útblígs eða Úti-blígs- af mannsnafninu Blígr. Fyrst vil jeg þá benda á það, að bæjanöfn þau, er enda á staðir, eru um 600 á landinu (bygðir og óbygðir bæir) (Safn t. s. Ísl. IV. B. 438). Um 580 þessara nafna eru vafalaust kend við karla- eða kvennanöfn eða viðurnefni þeirra. Aðeins 22 eru óviss ennþá, en vissulega mun það koma í ljós, að nokkur þeirra sjeu líka eins mynduð, þar á meðal áðurgreint nafn. Þetta bendir því sterklega á, að Útibliksstaðir sjeu kendir við mannsnafn (eða auknefni) og tæplega við annað nafn en Bligr. Þetta verður því mjög sennilegt þegar betur er aðgætt.

Svo er að sjá, að Bligr Helgason í Frakkadal, sje fyrsti maður á Íslandi með þessu nafni (um 930) (Þorskf. saga, 33 o. v.). Í Þorskfirðingasögu virðist vera átt við tvo menn með þessu nafni og það er áreiðanlegt að ýms örnefni (t.d. Blígslækur o.fl.) hafa þekst þar í Þorskafirði á tíma söguritarans. Þá kannast flestir við Þórð blíg (eða Blýg) af Eyrbyggjasögu (Eyrb.-saga Þórðr blígr Þorláksson á Knerri) og hefir þetta líklega verið auknefni löngu fyrr, en orðið síðar að eiginheiti (sbr. Grettir - Ófeigr grettir).

Í 74. tölublaði Morgunblaðsins 1955 mátti sjá að
jörðin Útibliksstaðir væru til sölu ásamt áhöfn.
Mynd af Tímarit.is.

Nú er það merkilegt, að Blígsnafnið hefir haldist við hjer á landi fram á 15. öld, því Blígs Höskuldssonar (í Skagafirði) er getið í skjölum frá 1450 og 1460 (þá er hann dáinn) (DI. V. B. 54 og 221). Loks má benda á örnefnið Blígsvarða á Víðidalstunguafrjett, einmitt á afrjettarlandi því, sem fjenaður Úti-bliksstaðabóndans hefir gengið á til forna, því fjenaður gekk þá víðar en nú. Það virðist því ekki fjarri lagi, að geta þess til að áðurnefnd varða sje kend við einhvern afkomanda Blígs þess er bygði fyrst á Úti-bliksstöðum (eða hann sjálfan) því örnefnið er notað sem landamerkjamið um 146l og hefir því verið alþekt á 15. öld. (DI. V. 347. Í yngri skjölum „blíksvarða“ og styður það tilgátu mína).

Blígr fyrsti búandi á Úti-bligsstöðum verið kallaður Út-Bligr eða Úti-Bligr, af hverju sem hann hefir fengið nafnið, sbr. Út-Steinn, sem getið er um í Hálfssögu og Hálfsrekka, til aðgreiningar frá Inn-Steini bróður sínum, sem vildi „húsa sem heima“, en Út-Steini þótti gott að vera úti og „standa á stýrisstöngu alt til kvelds“ (Fornaldars. Norðurl, I. B. 33. bls.) Rjetta nafnið er því Úti-Bligsstaðir og ætti að rita þannig framvegis. Bærinn stendur utarlega á Heggstaðanesinu við Miðfjörð, og mætti geta þess til, að Bligr hefði róið til fiskjar og þótt þaulsætinn á sjó úti.

Það er algengt í málinu, að g á undan óhljómkvæðum stöfum, t.d. s, missir hljóðglegni í framburði, en í riti er stundum ritað k fyrir g, sbr. riksa, rjettara: rigsa af reigsa (reigja sig), laks (lax) af leggja (lag).

Sögnin „bligra“ hefir þýtt í norrænu að kipra augun og blína á eitthvað, sem er stofnskylt bligra, blígar þýðir sá sem horfir fast á e-ð. Ný-norskan bligra = flöktandi birta, er af sömu ætt en í afleiddri merkingu og talið vera kynjað frá germönsku blih eða blig, sem þýddi þann er deplar augunum. (A. Torp: Nýn. Etyml. Ordb., bls. 3l o. v.).

Eftir að þetta var ritað, sje jeg í ritgerð eftir Hannes Þorsteinsson, skjalavörð (Árb. Fornl.fjel. 1923), að hann hefir komist að sömu niðurstöðu og jeg um Úti-Bliksstaðanafnið og getur þess, að Daði Níelsson hinn fróði riti á einum stað: Útiblígsstaðir. Sömuleiðis leiðir Hannes rök að því, að Lambableiksstaðir í Austur-Skaptafellssýslu muni heitið hafa Lambablígsstaðir. Verður því að telja skýringuna svo gilda og góða, að ekki þurfi að tvístíga lengur um nafn þetta. Rjettara tel jeg að rita Úti-Blígs- en ekki Útiblígs-, en það skiftir reyndar litlu.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 47. tbl.  Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir