Velkominn þorri og vertu góður! :: Leiðari Feykis

Þorramatur nútímans var alþýðumatur Íslendinga áður fyrr. Mynd af Netinu.
Þorramatur nútímans var alþýðumatur Íslendinga áður fyrr. Mynd af Netinu.

Framundan [á morgun] er bóndadagurinn sem markar upphaf þorrans, fjórða mánuð vetrar að gömlu íslensku misseratali. Hann hefst ætíð á föstudegi á bilinu 19.–26. janúar og lýkur á þorraþræl, laugardeginum fyrir konudaginn en þá tekur góa við. Eins og margir þekkja hefur þessi tími verið notaður til mannfagnaða í formi þorrablóta þar sem fólk kemur saman, etur og drekkur og hefur hið fornkveðna; að maður sé manns gaman, í heiðri.

Í nútímanum er lítið sem minnir á líf Íslendinga á þorra fyrri alda. Fyrir það fyrsta er mjög sjaldséð, jafnvel fáséð, að nokkur húsbóndi bjóði þorra í garð með því að rísa úr fleti eldsnemma bóndadags og rjúki út á skyrtunni einni og í annarri buxnaskálminni, dragandi hina á eftir sér. Samkvæmt gamalli sögn áttu þeir að ljúka upp bænum, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn og bjóða þorra velkominn til húsa. Þorra var síðan fagnað með því að bjóða til veislu.

Í bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson segir að þorrinn og góan hafi þótt erfiðastir vetrarmánaðanna þar sem oft var farið að ganga á matarbirgðirnar. Það þekkjum við ekki í dag, sem betur fer, þar sem nóg er af mat og flestir sem éta of mikið. Einhverjir gætu tengt þorrann við hörmungar og hungur fyrst verið er að éta „skemmdan mat“, súran og kæstan.

En þarna skulum við doka örlítið og spá. Þorramatur er ekkert annað en stæling á fyrri alda mat þar sem hvorki frysti- né kæliskápar voru komnir á teikniborðið. Þá var matur geymdur í skyrmysu sem lækkaði pH gildi matarins og kom í veg fyrir að óæskilegir gerlar næðu að vaxa. Einnig var matur þurrkaður, líkt og harðfiskurinn, svo ekki óx gerillinn þar og svo var kjöt ýmist saltað í tunnur eða hengt upp í hlóðaeldhúsum eða reykhúsum til að forða því frá skemmdum þar sem gerillinn náði ekki að vaxa í þeim aðstæðum, ef rétt var að farið. Þá er verkun hákarlsins sér kafli út af fyrir sig. Á þorranum var sem sagt ekkert nýmeti að fá aðeins „þorramat“.

Að kalla þorramat skemmdan mat er móðgun við formæður okkar og feður, nema þá að hann sé illa verkaður og skemmdur þess vegna.

Nú horfir svo við að líklega verða engin stór þorrablót í ár nema eitthvað mikið breytist hjá sóttvarnateyminu fræga, en væntanlega eiga einhverjir eftir að slá upp sinni eigin þorraveislu. Þá er gott að hafa eftirfarandi erindi Hávamála í heiðri:

Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir.
Hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður var'g
í garði Gunnlaðar.

Góðar stundir
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir