Blastaði Heimi þegar hann var nýkominn með bílprófið / SÆÞÓR MÁR

Sæþór í miðju sólói á tónleikunum Jólin heima tveimur árum eftir að hann svaraði Tón-lystinni. MYND: ÓAB
Sæþór í miðju sólói á tónleikunum Jólin heima tveimur árum eftir að hann svaraði Tón-lystinni. MYND: ÓAB

Ungur maður er nefndur Sæþór Már Hinriksson og kemur frá Syðstu-Grund í hinni skagfirsku Blönduhlíð. „Undanfarna mánuði er ég búinn að vera með stærstan part af sjálfum mér á Króknum, í Víðihlíðinni hjá tengdó, en hugurinn leitar alltaf heim í Blönduhlíðina,“ segir Sæþór sem er fæddur árið 2000 og hefur verið spilandi og syngjandi frá fyrstu tíð.

„Ég er alinn upp á austurbökkum Héraðsvatna, á grundinni syðri þar sem menn börðust upp á líf og dauða um landsyfiráð. Í dag eru deilumálin leyst með því að tala saman og frú Kolbrún nær yfirráðum endra nær. Ég er sonur fyrrnefndrar Kolbrúnar, en hún er dóttir Sæma og Lillu á Grund. Faðir minn, Hinrik, er ættaður úr Reykjardal í Þingeyjarsýslu og kom hingað í Skagafjörð til að eltast við konur og hesta, og hefur verið hér síðan með Kolbrúnu sinni og hrossum. Ég er því baneitruð blanda af þingeysku lofti og skagfirsku grobbi,“ segir Sæþór léttur.

Hann segist hafa lært á flest hljóðfæri sem í boði voru í tónlistarskólanum á sínum tíma, til að mynda; fiðlu, trompet, blokkflautu, trommur og píanó. „En gítarinn var það hljóðfæri sem ég lagði hvað mesta stund á, og geri enn. Í dag er ég mest að spila á gítar, en er nokkuð sjóaður á píanó og bassa.“ Spurður um helstu afrekin á tónlistarsviðinu segir hann: „Ég myndi segja að það sé alltaf persónulegt afrek fyrir mig þegar fólk vill fá mig til að spila og skemmta sér, það er fátt sem veitir mér meiri ánægju en að skemmta öðrum og að sjálfsögðu sjálfum mér. En annars fannst mér það mikill heiður þegar Geirmundur Valtýsson heyrði í mér og bað mig um að spila og syngja með sér á áramótaballi, ég var lengi á leiðinni niður eftir það. Næsta afrek sem ég ætla að vinna er að skemmta fólki með Danssveit Dósa,“ en það er gleðisveit sem hann er í ásamt nokkrum góðum félögum sínum.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Lagið sem ég spilaði seinast á Spotify er Come Josephine in My Flying Machine. Var að horfa á Titanic og í framhaldi af því fór ég aðeins að kynna mér söguna og myndina og sá þá atriði sem komst ekki að í myndinni þar sem að Jack og Rose eru að raula þetta lag. Lagið kom fyrst út árið 1911.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég hugsa að það sé bara sveitaballatímabilið. Ég sé mikið eftir því að hafa misst af Eldborg 2001.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Nýja platan með Hvanndalsbræðrum er mjög skemmtileg og svo bíð ég spenntur eftir nýju Káinn plötunni með Baggalút. Mér finnst líka voða gaman að heyra eitthvað gott lag með Skítamóral.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var aðallega hlustað á tónlist í bílnum, en þá var geisladiskahulstrið dregið upp sem innihélt framar öðrum diska eins og Tvöfalda bítið safnplatan með Stuðmönnum, Þjóðsaga með Pöpum og síðan söng ég mikið með plötu eftir kántrýsveitina Klaufa. Þessar þrjár plötur mótuðu mig svoldið og minn tónlistarsmekk. Nú er ég blindfullur og kemst ekki heim en það er allt í lagi því karlmannsgrey er í konuleit.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér?
Ég er nú af YouTube-kynslóðinni þannig að ég held að ég hafi ekki keypt plötu nema þegar ég fór að sanka að mér gömlum vínylplötum með Karlakórnum Heimi, Stefán Íslandi og Rangárbræðrum.

Hvaða græjur varstu þá með? Til að spila vínylplöturnar var ég og er með einhvern plötuspilara sem mamma keypti handa mér fyrir mörgum árum og gamlar steríó-græjur sem að pabbi gaf mér.

Hver var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Mig minnir að fyrsta uppáhalds lagið mitt hafi verið við höldum til hafs á ný í flutningi Papana. Ég söng þetta á hástöfum þegar ég var yngri og impraði á því við alla að það væri allt í lagi.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég þoli ekki Ég lifi í voninni með Stjórninni, strákunum í bandinu mínu finnst svo gaman að stinga upp á því að spila það – sem við endum alltaf á að gera.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég myndi að sjálfsögðu spila lagið Dúddírarirey sem við strákarnir í Danssveit Dósa erum að fara að gefa út á næstu vikum. Það er lag sem ætti að koma öllum í stuð.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Sigfús í Álftagerði eða Einar á Kúskerpi, fer eftir því hvort ég hafi farið að sofa.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég væri bara til í að skella mér þangað sem mínir menn í Skítamóral væru að spila og taka Frissa frænda og guðföður minn með til að sýna honum að þetta sé aðalbandið.

Hvaða músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Ég var með flestalla diskana með Karlakórnum Heimi í Tercelnum sem ég var á þegar ég fékk prófið, blastaði þeim mikið og söng hástöfum með öllum lögunum, bæði fyrsta og annan tenór. Einnig var ég með einn Creedence Clearwater Revival safndisk sem fékk stundum að hljóma.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mín stærsta fyrirmynd í tónlist á sínum tíma var Ingó Veðurguð og held ég að hann og hans tónlist hafi mótað mig mikið sem trúbador allavegana. En mig dreymir mest um að vera meðlimur í vinsælu sveitaballabandi, þegar það tímabil reið yfir. Kannski kemur það aftur og draumurinn rætist, hver veit.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Mín allra uppáhalds plata er Nákvæmlega með Skítamóral, það er ekki eitt vont lag á þessari plötu. Titillag plötunnar nákvæmlega er eitt af mínum uppáhaldslögum og svo eru vinsælir slagarar þarna á borð við Sílíkon, Drakúla, Þráin og svo að sjálfsögðu Farin. Ætli þetta sé ekki bara besta plata allra tíma?

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Samkvæmt Spotify eru sex mest spiluðu lögin hjá mér frá upphafi þessi:
María Ísabel – Hvanndalsbræður
Eltu mig uppi – Sálin
Spenntur – Á móti sól
Ég er kominn – Sálin
Lína Langsokkur – Ilmur Kristjáns
Ísland – Karlakórinn Heimir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir