Halli Lalli uppgötvar heim hringitónanna

Halli Lalli við vinnu sína.
Halli Lalli við vinnu sína.

Haraldur Lárus Hallvarðsson, 61 árs gamall smiður á Sauðárkróki, oft kallaður Halli Lalli (og smíðahópurinn hans stundum HLH flokkurinn – nema hvað), hringdi í skrifstofu Feykis og var bara kátur. „Það er gott að búa á Íslandi og þá auðvitað alveg sérstaklega hér fyrir norðan, hér er enginn barlómur, ekkert stríð, enginn ófriður... nema þá kannski í kringum hann þarna dómsmálaráðherrann, alltaf eitthvað að gerast hjá þeim manni.“

Og ertu þá bara ánægður með verðbólguna og allt hitt? „Ja, ég er ekkert að kvarta, vorið búið að vera milt og færðin góð og við smiðirnir kvörtum ekki við þessar aðstæður. Getum unnið fram á rauða nótt ef þess ber við ... ber við, segir smiðurinn ...hehe.“

Einmitt, en hvað get ég gert fyrir þig Halli minn? „Ja, það var nú ekkert sérstakt sosum. Ég ætlaði nú bara að nefna við þig hvað þessi tækni... já, nútímatæknin, er orðin ótrúleg. Og þá ekki hvað síst símarnir sko.“

Já, þetta eru orðin töfraverkfæri þessir nýjustu símar. Varstu að hala niður einhverju nýju appi í símann þinn? „Nei, ég kann nú ekki mikið á þetta dót sko, get hringt og sent SMS og svona, hef eitthvað verið að atast í að skipta um hringitóna og svona, já þú veist... en ég skal nú segja þér það vinur að ég lenti í alveg mögnuðu um daginn. Ég var hérna á biðstofu fyrir sunnan sko, þurfti að láta skoða kjaftinn á mér eins og gengur, skiptir ekki máli, en hérna við vorum þarna átta eða tíu á biðstofunni saman og auðvitað allir með símann í kjöltunni og höfuðin hangandi oní bringu.“

Jú, ég kannast við þetta. „Já, einmitt, en svo eru allir þessir símar með alls konar hringitóna og bjölluhljóð eða hvað þetta nú er. Nema þetta var bara eins og ein allsherjar simfónía bara, ég segi það satt, stanslausar hringingar og svona. Ein daman var með eitthvað lag sem fór í gang í hvert skipti sem síminn hringdi, nú og annar með hnegghljóð... svona eins og í hesti þú skilur, sennilega verið hestamaður. En ég sat þarna rétt hjá manni... ja, ætli hann hafi ekki verið svona um fertugt og ég gat nú ekki annað en skellihlegið því hann var hérna með hringitón sem var svona eins og frethljóð ... eða prump sko. Ég gat ekki annað en spurt hann út í þetta og já, hann hafði fundið þetta einhversstaðar á netinu og svo sagði hann mér að það væri svo magnað að þessir nýjustu hringitónar kæmu með hérna sko meðfylgjandi lykt. Og þá varð ég nú heldur betur hissa því það fylgdi einmitt þessi rosalega mikla prumpulykt hringingunni...  já eða svo ég segi það bara hreint út, bara andskotans skítafýla. Ég varð alveg gáttaður. Finnst þér þetta ekki magnað? Það held ég að þetta falli í kramið á kaffistofunni hjá okkur strákunum.“

Sennilega, en heldurðu að þetta sé ekki bara eitthvað bull Halli Lalli, var ekki meðurinn bara slæmur í maganum og hefur ákveðið að grínast í þér? „Neinei, ég fann alveg lyktina sko og nei, þetta getur ekki hafa verið grín, ég held að maðurinn hafi verið frá Akureyri. En ég á nú alveg eftir að finna þetta á netinu – þennan hérna hringitón – er búinn að leita talsvert, mér fannst þetta svo sniðugt. Þú hefur ekki heyrt um þetta?“

Nei Halli minn, þetta hefur alveg farið fram hjá mér. „Jæja, ég held bara áfram að leita. Vertu blessaður vinur.“

Blessaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir