Linmæltur Sunnlendingur lendir í orðaskaki

Kristján hefur ekki sagt skilið við ræktunina þó hann hafi gefið kartöflurnar upp á bátinn. MYND AF NETINU
Kristján hefur ekki sagt skilið við ræktunina þó hann hafi gefið kartöflurnar upp á bátinn. MYND AF NETINU

Það eru liðin nokkur ár síðan Kristján Gísli Bragason flutti norður í land en hann á ættir að rekja á suðurlandsundirlendið, alinn upp í Þykkvabænum eða þar um slóðir. Hann hafði samband við ritstjórn á dögunum og sagði í raun allt gott að frétta. Hann væri smám saman farinn að geta borðað kartöflur á ný, var kominn með bagalegt ofnæmi fyrir þeim sem var nú kannski helsta ástæðan fyrir því að hann flutti norður. „Hér er gott að vera, ég kann vel við fólkið og hafgoluna, hér er gott að ríða út og versla í kaupfélaginu ... en það er eitt sem ég ekki skil.“

Nú hvað er það Kristján? „Ja sko, ég skil ekki af hverju fólkið hérna þarf alltaf að vera að gera sig svona aumt. Nú hefur fólk hér orð á sér, svona á landsvísu sko, að vera svoldið bratt sko, já jafnvel montð, já og þá kannski sérstaklega Skagfirðingarnir sko. Þess vegna finnst mér þetta svo skrítið.“

Hvað meinarðu? „Ja sko, að kalla sig sko Norðvestlendinga.“

Og? „Ég meina, þetta er náttúrulega alveg voðalega neikvætt sko. Ég hefði nú haldið að það hefði verið svoldið svona, já eða það hefði mátt búast við að þið hérna á svæðinu hefðuð frekar kallað ykkur Norðbestlendinga og hérna hérna svæðið Norðurland besta – ekki vesta sko. Það hefði verið meira svona, já jákvæðara bara, og meira svona intressant og aðlaðandi fyrir fólk sem er í svona hugleiðingum, eins og ég var til dæmis, að flytja mig um set... núnú eða bara ferðast hingað.“

Það er engu logið upp á linmæli ykkar af sunnlensku sléttunni Kristján minn. Við búum á Norðurlandi vestra – ekki vesta, alveg eins og þeir í Eyjafirðinum búa á Norðurlandi eystra, með erri? „Haaa? Nú ekki eista? Jæja, hafið þetta þá bara eins og ykkur sýnist, þið eruð vanir því. Blessaður...“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir