Rektorinn kvartaði undan hávaða og graðhestamúsík / PÉTUR INGI

Pétur Ingi í Las Vegas. AÐSEND MYND
Pétur Ingi í Las Vegas. AÐSEND MYND

Pétur Ingi Björnsson, ljósmyndari með meiru, er árgangur 1970 og hefur gaman að tónlist. Ég er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki, sonur Björns Sverrissonar og Helgu Sigurbjörnsdóttur. Bjó lengst af á Skagfirðringabraut 39 og var þeirra gæfu aðnjótandi að fá reglulega spólumix frá félaga Óla Arnari,“ segir Pétur.

„Það spiluðu allir á mínu heimili á blásturshljoðfæri, ég byrjaði víst að blása áður en ég byrjaði að tala. Ég var í tónlistaskólanum sem gutti, byrjaði á blokkflautu en síðan fór ég á trompet, prófaði aðeins píanó og síðar saxófón. Ég hafði einnig mjög gaman af því að spila á júðahörpu.“

Spurður út í helstu afrekin á tónlistarsviðinu segir hann það líklega verða að teljast vera starf rótara hjá Hljómsveit Geirmundar en Pétur rótaði með Geira og félögum á árunum í kringum 1990 en þá voru stundum ansi mörg gigg í hverri viku. „Nú svo var ég auðvitað annar af langbeztu plötusnúðunum á Króknum árið 1986,“ segir hann hógværðin uppmáluð.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Þegar þetta er skrifað þá er Peacemaker með GreenDay að hljóma, ég er mikill GreenDay aðdáandi.

Uppáhalds tónlistartímabil? Seven- og eitís, það er erfitt að gera upp á milli. Annars er ég algjör alæta á tónlist.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Allt sem er fjörugt, ég hlusta mest á tónlist til að reka mig áfram í vinnu og auðvitað á hjólinu. Núna um jólin var ég þó að hlusta mikið á Baggalút og Bríeti. En annars bara eitthvað sem hreyfir við mér.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Ég á tvo eldri bræður sem kenndu mer að hlusta á létt þungarokk, s.s, Deep Purple, Led Zeppelin, Jethro Tull, Pink Floyd, Eric Clapton og CCR svo eitthvað sé nefnt. Það var mikið hlustað á þetta heima hjá mér.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta platan var líklega Poppkorn sem var safnplata, fyrsti diskurinn líklegast Dire Straits og kasettan var Einu sinni var. Hvða niðurhalið varðar þá var það Muse.

Hvaða græjur varstu þá með? Magga hans Palla tannlæknis gaf mér mínar fyrstu græjur, mig minnir að þetta hafi verið Marantz.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Það koma tvö til greina; Bourée með Jethro Tull sem ég heyrði first hjá Hilmari frænda mínum. Svo var það Hocus Pocus með Focus. Þetta var einnig eitthvað sem Hilmar leyfði mér að hlusta á.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Án ef lagið um það sem er bannað.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það fer auðvitað eftir hverjir mæta. Ég lærði það hjá Geira í gamla daga að lesa dansgólfið. En líklegast yrði það Muse, Pink og Prince til að byrja með, svo er ég með frábæran stuðlista sem ég hjóla við sem heitir Spinning – hann getur ekki klikkað.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Rólegheit. Michael Bublé er frábær í því að redda því. Svona rétt til að byrja daginn er gott að byrja rólega og enda með fjörugu rokki.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Sko, ég er búinn að fara á nokkra góða en ég held að ég færi á Beth Hart eða Crowded House og auðvitað tek ég Óla Arnar með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Þetta er ekki auðvelt, ég held að ég verði að segja George Michael, Prince, a-ha, Europe og Simple Minds. Ég var einn af þeim sem valdi Wham! en ekki DuranDuran og svo Simple Minds en ekki U2.

Hvaða tónlistarmaður hefur haft mest áhrif á þig? Ég hef alltaf verið hrifinn af Eric Clapton, var svo heppinn að sjá hann á tónleikum í Osló árið 1990. Ef mér líður ekki vel, þá er hann sá sem kemur first upp í lagalistanum.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Ég læt vaða á plötu sem skipti mig máli. Það verður að vera Pump með Aerosmith. Ástæðan er sú að ég var í skóla í Noregi og var þar á heimavist, um helgar fóru flestir heim. Ég hins vegar hlustaði á tónlist og framkallaði myndir. Einn góðan sunnudag kom rektorinn, sem átti hús u.þ.b. 500 m frá skólanum, og kvartaði undan hávaða og graðhestamúsík. Já, þessi diskur snérist svo mikið í græjunum að ég held að hann hafi næstum brunnið yfir.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Þegar ég fer yfir Spottify og athuga hvaða lög ég hlustaði mest á árið 2020 þá er listinn svona:
Funhouse / P!nk
War Pigs / Black Sabbath
Epic / Faith No More
Pressure / Muse
Are you gonna go my way / Lenny Kravitz,
Kiss / Prince
Why don’t you get a job / The Offspring

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir