MOLDUXAR Á FERÐ OG FLUGI

Byrjunarlið Molduxa. Árni Egilsson er lengst til vinstri á myndinni.

Um hádegisbil s.l. laugardag  12. september s.l. risu árrisulir Molduxar úr rekkju og lögðust í víking. Að þessu sinni var förinni ekki heitið á engilsaxneska grundu til að flengja Gordon heldur var förinni heitið í skurðinn hérna austan við okkur til að etja kappi við þeirra færustu körfuknattleiksmenn svo sem siður hefur verið hjá Uxunum þegar þannig hefur legið á okkur.

 

Þar sem farið var í fyrra fallinnu tókst ekki að fullmanna langferðabílinn en þó nóg lið til að skelka verulega þá skurðarmenn.  Kallaður var til einkabílstjóri af vandaðri gerð svo sem hæfir slíkum félagsskap. Var þá ekið í hendingskasti austur á bóginn og hvergi slakað á hvorki hjá bílstjóra né Uxum. Voru helstu vandamál þings og þjóðar krufin til mergjar og lausnir fundnar á öllum helstu dægurmálunum og var farið langt með að brúa gjána til Bessastaða á leiðinni en eins og helstu þjóðhöfðingjar  vesturálfu vita þá hafa Molduxar gefið leyfi sitt fyrir því að Árni Egilsson verði næsti forseti lýðveldisins.

 

Svæk ehf trl kvað upp úr með það á leiðinni að skurðurinn hefur ekkert upp á að bjóða í náttúrulegu tilliti í samanburði við Skagafjörðinn, en maðurinn er mikill áhugamaður um náttúruna í öllu tilliti. Þegar komið var í höfuðstað þeirra skurðarra var m.a. litið við á nokkrum testofum heimamanna og efnahagur þeirra studdur lítillega með skagfirskum gjaldeyri. Auðvitað var komið við í listagili heimamanna enda Molduxar listunnendur með afbrigðum og þekktir fyrir góða list. Engum kom á óvart að sjá að Skagfirðingurinn Guðbrandur Ægir stóð fyrir sýningu þar á bæ í þeim fróma tilgangi að auðga vesælann anda heimamanna og sáum við ekki betur en að vel tækist til hjá honum.

 

Lauslega var litið á kappleik í körfubolta milli áhugamannaliðanna í Tindastóli og Breiðablik. Stóðu Molduxar síðan fyrir námskeiði í körfubolta fyrir bæði lið þó að lið Breiðabliks þyrfti þess frekar en Tindastólsdrengir. Þegar viðveran í Skurðinum var gerð upp á heimleiðinni kom í ljós að Molduxar komu taplausir úr keppnisferðinni og misstu ekkert frákast en það er nú reyndar ekki nýjar fréttir.

 

Þegar heim var komið var farið í að taka upp kartöflur í huggulegum garði á Króknum. Síðan stormaði breiðfylkingin heim til listamannsins GEY þar sem húsfrúin bauð til bjúgnaveislu af þeirri gerð sem aldrei gleymist og er henni hér þakkaðar frábærar móttökur og er á engan hallað í því að þar var hápunktur þessarrar keppnisferðar í skurðinn. Leiða má að því nokkuð sterkum líkum að lítið mál verður að fylla langferðabílinn í næstu keppnisferð Molduxanna. Í það minnsta ef ekki verður lagt svona snemma af stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir