Snarpir kippir í Mývatnssveit,

Ótrúleg saga, lygasögu líkust

 

Frá því um miðjan nóvember hefur orðið vart við allsnarpa kippi á jarðskjálftamælum í Mývatnssveit. Finnast kippirnir vel á næstu bæjum við upptökin, sem að sögn Freysteins Sigmundssonar hjá Jarðvísindastofnun Háskólans eru á lítt þekktu svæði rétt austan við Dimmuborgir. Freysteinn sagði í viðtali að ekki hefðu mælst kippir þarna  áður síðan var farið að fylgjast með Mývatnssvæðinu. Einkennilegt er við þessa kippi er hvað þeir eru reglulegir og einnig að þeir væru ávalt á svipuðum tíma dagsins. Allir enduðu á smá hrinu eftirskjálfta. Höfðu menn samband við forstöðumann Mývatnsstofu sem er mikill áhugamaður um jarðfræði og vel kunnugur svæðinu þar sem upptökin eru, en hann hafði enga frekari skýringu á þessu og taldi vænlegast að fara á vettvang og gera þar nokkrar athuganir. Að morgni þriðjudagsins 26. nóvember lögðu menn af stað á þremur vel útbúnum jeppum og undir hádegi voru menn komnir á þær slóðir sem snörpustu kippirnir höfðu mælst á. Ekkert benti til að einhverjar hræringar hefðu verið á þeim slóðum, engar sprungur sýnilegar í hrauninu né að hrunið hefði úr klettum. Það eina sem leiðangursmenn tóku eftir og furðuðu sig á var spýtnabrak á allstóru svæði og fjórir hurðarhúnar sem lágu innan um brakið. Er menn voru að velta þessu fyrir sér kom allsnarpur kippur og á eftir kippnum fylgdi mikill og djúpur hlátur svo jörð titraði. Var þetta um 5-600 m frá þeim stað sem leiðangursmenn voru á og hröðuðu þeir sér í áttina að upptökunum. Er þeir komu á staðinn þar sem þeir töldu upptökin vera blasti við þeim furðuleg sjón: stóreflis dyrakarmur og hurð sem hékk á annari löminni og töluvert spýtnabrak allt í kring. Við nánari eftirgrennslan fundust síðan fótspor sem stefndu að Dimmuborgum en eigandi sporanna sást ekki. Í samtali við Freystein síðar um kvöldið komu menn sér saman um að líklegasta skýringin væri sú að þarna væri Hurðaskellir að æfa sig enda vertíðin að byrja og litla hrinan sem fylgdi eftir hverjum skelli væri klárlega hláturroka sveinka. Er skemmst frá því að segja að eftir þessa ferð hefur ekki borið á neinum hræringum í sveitinni og jarðskjálftamælar sýnt eðlilegt ástand.

 

Þó hafa bændur þeir sem reykja kjöt sitt enn með gamla laginu orðið varir við grunsamlegar mannaferðir við reykkofa sína.  

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir