Stofnar grasmótoraleigu

Ármann Ketilsson á Sauðárkróki hefur sett á laggirnar fyrirtæki, sem hann kallar Grasmótoraleiga Ármanns. Tilgangur fyrirtækisins er að leigja út grasmótora til einstaklinga og fyrirtækja, sem vilja fá gras sitt slegið á náttúrulegan hátt, en ekki með mengandi vélum og hávaða.

-Ég fór á námskeið hjá Impru þar sem mér var kennt að setja upp viðskiptaáætlanir og stofna lítið fyrirtæki. Ég tók stofnun grasmótoraleigu sem lokaverkefni á námskeiðinu og þetta lukkaðist bara helvíti vel á blaði og nú ætla ég að koma þessu í framkvæmd í sumar.

Ármann sagði í samtalið við Dreifarann að hann hefði þegar orðið var við mikinn áhuga fólks og fyrirtækja á þessari þjónustu og hann væri þegar byrjaður að bóka fyrir sumarið. – Ég verð með fjóra grasmótora í útleigu, ég kem á staðinn með þá, set þá inn á svæðið sem þeir eiga að vinna á, girði í kring um þá ef það er ekki girðing fyrir og kem svo aftur eftir fyrirfram ákveðinn tíma og sæki þá aftur. Ég reikna með að hver grasmótor sé um 10 mínútur með fermetirinn og því ættu 2-3 tímar að duga fyrir svona meðalstóran garð, segir Ármann.

En viðskiptanef Ármanns nær lengra en flestra, því hann selur skítinn úr grasmótorunum eftir vigt. – Já grasmótorarnir skíta eins og allir vita og skilja eftir sig ummerki þess í garðinum. Geta garðeigendur því fengið óvæntan áburð og kærkomin til eigin nota eftir að þeir hafa unnið sína dagvinnu í garðinum. Ég sel kílóið á þúsund kall og getur fólk notað skítinn eftir þörfum í garðinum, hvort sem um er að ræða á grasblettinum eða í blómabeðum, enda tað grasmótora, eitt næringarríkasta bætiefnið fyrir mold og garða sem hugsast getur, sagði hinn hugvitssami Ármann Ketilsson hjá Grasmótoraleigu Ármanns ehf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir