Stefán Vagn býður sig fram til varaformanns Framsóknarflokksins
Eftir töluverða yfirlegu og fjölmargar áskoranir hefur Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi tekið ákvörðun um að bjóða sig fram til varaformanns Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi.
„Ég hef fulla trú á því að stefna og áherslur Framsóknar eigi sem fyrr brýnt erindi í íslensk stjórnmál. Erindi okkar er skýrt: að standa vörð um stöðugleika og velferð í landinu og tryggja öllum tækifæri til menntunar og atvinnu óháð búsetu. Áherslumál flokksins undanfarin ár hafa styrkt samfélagið okkar verulega og sýnt að ábyrg nálgun og öfgalaus umræða skilar árangri.
Við þurfum að halda áfram á þeirri vegferð með samvinnu og lausnamiðaða umræðu að leiðarljósi. Á sama tíma þarf Framsókn að standa fyrir enn skýrari forgangsröðun og fastari eftirfylgni áherslumála. Í því ljósi er efnahagslegur stöðugleiki, ábyrg ríkisfjármál og atvinnuuppbygging um land allt lykilatriði.
Ég vil leggja mitt að mörkum til að svo geti orðið. Ég tel að reynsla mín, bæði úr sveitarstjórnarmálum þar sem ég var oddviti í 12 ár og af störfum á Alþingi frá 2021, nýtist vel í því hlutverki. Ég hef starfað í Framsókn frá unga aldri og skynja vel hjarta flokksins og fólksins í landinu. Sem varaformaður mun ég leggja áherslu á að styrkja tengslin við grasrótina, skerpa áherslur og tryggja að það sem við ákveðum verði fylgt eftir af festu.
Framsóknarflokkurinn er fjöldahreyfing. Það er ekki verkefni eins manns eða nokkurra að halda á lofti merkjum flokksins, heldur er það verkefni okkar allra. Ég hlakka til samtalsins við flokksmenn í aðdraganda flokksþingsins og samstarfsins sem framundan er.“
Stefán Vagn Stefánsson
