Við gefum í á meðan aðrir ræsa vélarnar | Jóel Þór Árnason skrifar

Jóel Þór Árnason formaður Sjálfstæðisfélags Skagafjarðar. AÐSEND MYND
Jóel Þór Árnason formaður Sjálfstæðisfélags Skagafjarðar. AÐSEND MYND

Á kjörtímabilinu sem er að líða hefur Sjálfstæðisfélag Skagfirðinga verið afar virkt. Við höfum staðið fyrir fjölmörgum fundum og viðburðum með þingmönnum og öðrum áhugaverðum gestum, þar sem málefni samfélagsins hafa verið rædd af krafti og einlægni - nú síðast í Miðgarði þar sem við ræddum um orkumál á Norðurlandi og fengum til okkar góða gesti. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel þessir viðburðir hafa verið sóttir og ekki síður að nýtt fólk hafi reglulega bæst í hópinn með okkar góðu fastagestum.

Það hefur varla farið fram hjá mörgum að senn líður að sveitarstjórnarkosningum. Á meðan aðrir “ræsa vélarnar” þá gefum við í, enda hefur ekkert lát verið á okkar starfsemi undanfarin fjögur ár. Næsti viðburður er þó öðruvísi og í aðeins rólegri og óformlegri stemningu, en þar verður engin framsaga. Á morgun (föstudaginn 16. janúar) kl. 18 ætlum við að hittast á Sauðá, taka púlsinn og pæla í framtíðinni yfir pizzu og öðru gómsætu hlaðborði frá Sauðá. Viðburðurinn er opinn öllum og okkur langar að skapa notalegt rými fyrir samtal þar sem allir geta tekið þátt, hvort sem þeir eru vanir eða að stíga sín fyrstu skref.

Þegar stutt er í kosningar er rétti tíminn til að horfa bæði í baksýnisspegilinn og fram á veginn. Hvað hefur tekist vel og hvað má gera betur? Hver eru verkefnin framundan? Á fundinum gefst gestum tækifæri til að koma með tillögur, að bæði málefnum og mannavali á lista. Við leitum að fólki sem brennur fyrir Skagafjörð og vill leggja sitt af mörkum, hvort sem er á lista eða í öðru hlutverki í áframhaldandi uppbyggingunni.

Á svæðinu verða kjörnir fulltrúar flokksins í Skagafirði og þar gefst tækifæri til að bæði „grilla“ þá og gleðja. Þeir sem ekki eiga heimangengt í þetta skiptið þurfa engar áhyggjur að hafa - næg verða tækifærin næstu vikurnar til að mæta á viðburði og við tökum alltaf fagnandi á móti samtali. Það má hringja í mig, kjörna fulltrúa okkar eða aðra stjórnarmenn til að ræða málin.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga á samfélaginu okkar til að mæta. Maður hefur lítil áhrif með því að sitja heima. Það er gaman hjá okkur, umræðan er lifandi og nýtt fólk er ávallt hjartanlega velkomið. Við hlökkum til að hitta sem flesta á fyrsta viðburði ársins 2026 og hlökkum ekki síður til næstu fjögurra mánaða.

Jóel Þór Árnason,
formaður Sjálfstæðisfélags Skagfirðinga

Fleiri fréttir