Nýir vélarhermar í kennslu hjá FNV
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra er fyrsti framhaldsskólinn á Íslandi sem hefur fest kaup á tveimur nýjum vélarhermum ásamt uppfærslu á eldri hermakerfum frá Unitest Marine Simulators. Kaupin marka mikilvægt skref í áframhaldandi þróun á kennsluaðstöðu skólans í sjó- og vélstjórnargreinum.
Með þessum viðbótum eflist kennsla til muna og skapast betri aðstæður til fjölbreyttrar og raunhæfrar þjálfunar. Hermarnir gera nemendum kleift að æfa sig í raunverulegu umhverfi, prófa mismunandi aðstæður og læra á flókin kerfi skipa án áhættu.
Hermarnir eru í uppsetningar- og innleiðingarferli og eru því ekki enn komnir í fulla notkun í vélstjórnarnáminu. Þeir munu þó nýtast í öðrum áföngum á meðan, meðal annars þeim sem snúa að öryggisstjórnun, viðhaldi og rekstri skipa þetta kemur fram á vef FNV.
Í hermunum eru tvö ólík skip sem veita nemendum innsýn í fjölbreyttar aðstæður og ólíka uppbyggingu véla- og orkukerfa:
- Dráttarbáturinn Lalli Run er búinn tveimur aðalvélum og tveimur ljósavélum, auk tveggja skrúfa sem geta snúist 360° til þess að stjórna stefnubreytingum skipsins. Skipið er 28 metrar á lengd, 11,4 metrar á breidd og um 299 tonn að þyngd.
- Winterhub, gas- og dísilknúið gámaskip, er búið 10×92 vélbúnaði með heildarafl upp á 50.190 kW. Skipið er 366 metrar að lengd, 49 metrar á breidd og með heildarþyngd upp á 148.992 tonn.
Rafal Pawletko, Vice President og Technical Director hjá Unitest Marine Simulators, kom frá Póllandi til að sjá um uppsetningu hermanna og tryggja að kerfin væru rétt uppsett og tilbúin til kennslu.
Hluti af nýju hermunum er svokallað CBT-kerfi (Computer Based Training). Um er að ræða sjálfstæð kennsluforrit þar sem hægt er að taka fyrir einstök kerfi skipa og skoða þau í smáatriðum án þess að það hafi áhrif á rekstur annarra kerfa.
