3,1% atvinnuleysi á Norðurlandi vestra í september

Húnahornið segir frá því að skráð atvinnuleysi í almenna bótakerfinu í september hafi verið minnst á Norðurlandi vestra eða 3,1% samkvæmt nýju yfirliti Vinnumálastofnunar. Almennt atvinnuleysi á landinu öllu var 9,0% í september sem er nokkur aukning frá fyrri mánuðum. Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi aukist nokkuð í október og nóvember í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem er á vinnumarkaði vegna kórónuveirunnar.

Alls voru 18.443 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok septembermánaðar og 3.319 í minnkuðu starfshlutfalli, eða samtals 21.762 manns. Samanlagt atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og minnkaða starfshlutfallinu var 9,8% í september.

Á Norðurlandi vestra er skráð atvinnuleysi í almenna bótakerfinu 3,1% og 0,7% eru í minnkuðu starfshlutfalli, samanlagt 3,8%. Svipað ástand er á Vestfjörðum, í almenna bótakerfinu eru 3,3% en 0,4% í minnkuðu starfshlutfalli, samanlagt 3,7%. Á Austurlandi er samanlagt (í almenna og minnkuðu) 5,2%, á Vesturlandi 6,3% og á Suðurlandi 8,4%. Höfuðborgarsvæðið er með 10,1% og Suðurnes 19,6%.

Atvinnuleysi er hærra meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu. Húnahornið vísar í nánar upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar.

Frétt af Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir