40 lög komin hjá Ásgeiri Trausta eftir nóttina
Húnvetningurinn Ásgeir Trausti og félagar hans hafa leikið og tekið upp um 40 lög frá því klukkan 17 í gær en eins og fólki er kunnugt ætlar hann að að taka upp eins margar sjö tommu vínylplötur og hann kemst yfir á einum sólarhring. RÚV sendir beint úr stúdíói Hljóðrita í Hafnarfirði á RÚV 2 og RÚV.is í svokölluðu hægvarpi sem lýkur kl. 17 í dag. Einnig er hægt að fylgjast með á YouTube rás Ásgeirs.
Matthías Már Magnússon, sem stjórnar útsendingunni, segir á RÚV.is að um klukkan hálf átta í morgun hafi verið búið að þrykkja 40 lögum í vaxplötu. Hann viðurkenndi að örlítill galsi væri kominn í fólk eftir 14 klukkustunda samfellda útsendingu, en þó væri engan bilbug að finna á tónlistarmanninum.
„Við erum með nóg af kaffi. Það er gott kaffi hérna hjá okkur og það skiptir höfuðmáli,“ segir Matthías á heimasíðu RÚV.