Djamm með Justin helsta afrekið / KIDDI K

Í þetta skiptið er það Kristinn Kristjánsson (1973), Kiddi Ká, tvíburabróðir Stjána trommara, sem fræðir okkur um tónlistarsmekk sinn og -sögu. Kiddi býr nú á Siglufirði og starfar hjá Fiskmarkaði Siglufjarðar, sonur Jóninnu Hjartardóttur og Kristjáns Óla Jónssonar. „Ég er fæddur á Siglufirði en flutti á Krókinn þegar ég var 8 ára, ætla að leiðrétta tvíburabroður minn,“ segir Kiddi og vitnar til eldri Tón-lystar sem Stjáni svaraði. „Ég er nokkuð viss um að við fluttum á sama tíma.“

„Mitt hljóðfæri er bassi. Ég ætlaði reyndar að verða hljómborðsleikari en það kom aldrei til þó ég hafi átt hljómborð en ekki bassa á fyrsta giggi,“ segir bassaleikarinn sem er síðan spurður út í helstu afrek sín á tónlistarsviðinu. „Hljómsveitin Segulbandið var fyrsta hljómsveitin sem ég var í, stofnuð á Króknum árið 1987. Eftir það var ekki aftur snúið, tónlistarbakterían komin til að vera. Ég spilaði með fleiri hljómsveitum á Króknum, s.s. John Wayne, Draugunum, Herramönnum og Nítró, upphaflega Kjammi & Kjuðarnir, sem æfði á bílskúrslofti í Dalatúninu. Nítró gat yfirleitt ekki æft fyrr en trommarinn var búinn að vaska upp heima hjá sér.

Fleiri hljómsveitir fylgdu í kjólfarið og tímabundin verkefni. Lengst af hef ég verið í hljómsveitinni Spútnik, og er enn, með frábærum tónlistarmönnum. Kristján Gislason er söngvari í þeirri sveit.

Ég hef verið svo heppinn að fá að spila með frábæru tónlistarfólki og kynnast mörgum í tengslum við tónlist – ýmislegt verið afrekað og gert – en ætli helsta afrek mitt hafi ekki verið þegar ég spurði Justin Timberlake að því hvort við ættum ekki að spila lag eftir hann og annað með Lenny Kravitz í syrpu, þetta væri hvort eð er sami hljómagangur. Hann var til í það og hafði gaman af,“ segir Kiddi og bætir við að djammið með Justin hafi staðið í um tvo tíma og ýmislegt verið spilað. „Þetta var skemmtileg upplifun.“

Hvaða lag varstu að hlusta á? „If the World Was Ending með JP Saxe og Julia Michaels.“

Uppáhalds tónlistartímabil? „Ég held ég geti tengt við fleiri en eitt tímabil. 80´s hefur alltaf skipað stóran sess. Sveiflast svolítið fram og tilbaka, hef fylgst með því nýjasta í gegnum börnin mín og hef haft gaman að.“

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Ég hef gaman að því að fyljgast með og hlusta á nýja íslenska tónlist, eins og hana Bríeti, „hann“ Auði, Daða Frey ofl. Margir erlendir tónlistarmenn eru þarna líka eins og John Mayer, The Weeknd, Dua Lipa, JP Sax og fleiri. Svo dett ég reglulega í nostalgíukast. Eg er reyndar líka dottinn í „kantríið“, meira og meira. Eins og sjá má, ADHD og út um allt.“

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Foreldrar mínir er af 68 kynslóðinni svo mikð var um 60s og 70s. Elvis Presley, Bítlarnir og margir fleiri. Rokkið í bland við það sem bítlakynslóðin hlustaði á. Held reyndar að við bræður höfum verið heppnir með það að fá þetta allt í bland.“

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Mig minnir að það hafið verið platan „August“ með Eric Clapton.“

Hvaða græjur varstu þá með? „Pioneer hljómflutningstæði foreldra minna, hétu líka fermingargræjur á áttunda áratunum.“

Hvað var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? „Það var örugglega lagið „Johnny Can´t Read“ með Don Henley. Gaman að því.“

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? „Ég held að ekkert lag geti eyðilagt daginn hjá mér, líklega væri búinn að buinn stoppa það áður.“

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Það færi alveg eftir því hverjum væri boðið. Félagarnir fengju að hlusta á Toto, the Police, Steely Dan og fleiri. Aðra fengi ég líklega til þess að stjórna græjunum fyrir mig.“

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Ég væri til í að heyra nýja uppáhaldslagið mitt If the World Was Ending með JP Saxe og Julia Michaels og tónlist í þeim dúr.“

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Við félagarnir höfum farið á nokkra tónleika, hérlendis og erlendis, og séð margar af okkar uppáhalds tónlistarmönnum. Ég færi með alla vini mína á Red Hot Chilli Peppers í LA, þar varð bandið til.“

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „Það voru hljómsveitir eins og Sálin hans Jóns míns, Síðan skein sól, Roxette, Bon Jovi, Phil Collins, Maxi Priest, Dire Straits og heill hellingur af öðru.“

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? „Ef ég mætti velja hvaða tónlistarmaður ég væri þá er það Nathan East [bassaleikari] – í það minnsta hefði hans hæfileika. Hef reyndar hitt hann perónulega þegar við nokkrir félagar fórum VIP á Toto tónleika í Berlín. Hann hefur spilað með mörgum þekktustu tónlistamönnum heims.“

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? „Ég held ég gæti ekki valið, þær eru nokkrar og lögin fleiri eflaust ef hægt þau væru talin upp.“

Fimm vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
If the World Was Ending / JP Saxe og Julia Michaels
Love Too Much / Keane
Elsku vinur / Stuðmönnum
Ride It / Regard
Don‘t start now / Dua Lipa

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir