9. flokkur drengja landaði fyrsta bikarmeistaratitli karla hjá Tindastóli
Strákarnir í 9. flokki karla, lögðu Hauka að velli 50-45 í úrslitum bikarkeppni Körfuknattleikssabands Íslands í morgun. Strákarnir brutu þar með blað í sögu körfuknattleiksdeildarinnar, því þetta er fyrsti bikarmeistaratitill karlaliðs hjá félaginu.
Greinilegt stress var í báðum liðum í upphafi leiksins. Okkar menn misstu af ákjósanlegum færum undir körfunni en smám saman hristu menn stressið af sér. Tindastóll spilaði svæðisvörn og komst liðið yfir í fyrsta skiptið í stöðunni 7-6. Kristinn kom svo strákunum í 10-6 en þá tókur Haukar góða rispu og komust yfir með tveimur þriggja stiga körfum 10-12 og þannig var staðan eftir fyrsta leikhluta.
Viðar opnaði annan leikhlutann með þriggja stiga körfu og áfram héldu strákarnir að spila svæðisvörn og heimamenn voru að pressa úti á velli og féllu síðan niður í svæðisvörn sömuleiðis. Okkar menn voru skrefinu á undan í leikhlutanum og leiddu í hálfleik 29-23.
Seinni hálfeikur hófst með þriggja stiga körfu frá Haukunum, sem Pétur svaraði um hæl með 3 stiga körfu á móti. En í kjölfarið voru okkar mönnum afar mislagðar hendur, þeir töpuðu mörgum boltum og tóku illa ígrunduð skot, sem yfirleitt endaði með hraðaupphlaupi hjá Haukunum, sem skoruðu 10 stig í röð og komust yfir 34-38 við lok þriðja leikhluta.
Pétur Rúnar hóf fjórða leikhlutann af krafti, setti fimm stig niður í röð og Bjarni hélt áfram að hirða sóknarfráköst, en alls tók kappinn sá 9 sóknarfráköst í leiknum og 14 alls. Tindastóll setti á þessum tíma 7 stig í röð og voru með forystu 43-38, þegar Haukarnir ná að klóra í bakkann með þriggja stiga körfu og staðan orðin 43-41. Í stöðunni 44-43 fékk Bjarni tvö víti sem hann klikkaði á, en hann náði eigin sóknarfrákasti og Kristinn þakkaði honum kærlega fyrir það og smellti þriggja stiga körfu, gríðarlega mikilvægri og staðan orðin 47-43 fyrir okkar menn.
Þegar 1.20 voru eftir minnkuðu Haukarnir muninn í 47-45. Þá kom Kristinn með enn einn þristinn og kominn 5 stiga munur 50-45 og ein mínúta eftir. Haukarnir klikkuðu á þriggja stiga skoti og brotið var á Pétri þegar 8.9 sekúndur voru eftir. Hann setti annað vítið niður og innsiglaði þar með fyrsta bikarmeistaratitil karlaliðs í sögu Tindastóls.
Sannarlega frábær leikur hjá okkar strákum, sem á leið sinni lað titlinum lögðu bæði KR og Stjörnuna að velli.
Pétur Rúnar Birgisson var valinn maður leiksins, en hann var með 17 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Kristinn setti 16 stig og tók 7 fráköst, Finnbogi var með 8 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar, Bjarni var hreint ótrúlegur í fráköstunum, hann skoraði 5 stig og tók 14 fráköst, þar af 9 sóknarfráköst. Viðar var einnig gríðarlega sterkur í fráköstunum, tók 10 stykki auk þess að setja 5 stig.
Kári Marísson á heldur betur heiður skilinn fyrir sitt starf. Undir hans stjórn undanfarin ár hafa strákarnir vaxið með ári hverju og eru nú að skipa sér á sess með bestu liðum landsins í þessum flokki. Foreldrahópurinn á bak við strákana er gríðarlega áhugasamur og þéttur og þegar allir leggjast á eitt; þjálfari, leikmenn og foreldrar, er hægt að skera svona upp.
Innilega til hamingju strákar, Kári og foreldrar, þið áttuð þetta skilið og þið markið spor í sögu körfuknattleiksdeildarinnar!!!
www.tindastoll.is