Undirbúningur Landsmóts á Hólum í fullum gangi
Landsmót hestamanna verður haldið á Hólum í júlí 2026, sléttum 10 árum eftir að þar fór fram vel heppnað Landsmót. Það er hestamannafélagið Skagfirðingur sem heldur mótið, en í góðu samstarfi við Háskólann á Hólum, Sveitarfélagið Skagafjörð og Landssamband hestamannafélaga. Undirbúningur fyrir mótið er þegar hafinn enda í mörg horn að líta.
Stærsta verklega framkvæmdin sem fara þarf í er að endurbyggja velli en það þarf að gera reglulega því þeir vilja síga og aflagast. Stækka á upphitunarvöll og færa hann nær aðalvelli og gera nýja innkomu á aðalvöllinn. Annars býr svæðið að þeim framkvæmdum sem farið var í fyrir mótið 2016 og eru í fullu gildi.
Áætlað er að halda opinn kynningarfund um mótið og skipulag þess í haust, en hér koma þrjár litlar tilkynningar sem stjórn langar að koma til Skagfirðinga. „Von er á fjölda gesta á mótið og mikil eftirspurn eftir gistirými í Skagafirði og nágrannabyggðum. Við biðlum því til þeirra sem vilja leigja frá sér íbúðir, hús, herbergi, hjólhýsi eða hvað annað að hafa samband með tölvupósti á netfangið gisting@landsmot.is
Landsmót hestamanna verður ekki til nema með mikilli sjálfboðavinnu. Ef þú hefur áhuga á að taka vaktir á Landsmóti 2026 hvetjum við þig til að senda tölvupóst á landsmot@landsmot.is Sjálfboðaliðar fá ókeypis aðgang að Landsmóti, ókeypis aðgang að tjaldstæði, fæði á meðan að vöktun stendur og varning merktan Landsmóti.
Á Landsmóti verður lögð áhersla á fjölbreytni í framboði á mat og drykkjum. Einnig veglegt sölutjald með básum þar sem gestum býðst að kaupa ýmiskonar varning. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í sölu á mat eða varningi á Landsmóti hvetjum við þig til að senda tölvupóst á landsmot@landsmot.is”
Feykir mun fylgjast vel með undirbúningi Landsmóts og flytja fréttir reglulega af því sem er að gerast. hmj