Á fjórða tug afreksnema fær styrk til náms við Háskóla Íslands

Matthildur Kemp í góðum félagskap afreksnema sem hyggjast hefja nám í Háskóla Íslands í haust. Matthildur er þriðja frá hægri í fremri röð. Aðsend mynd.
Matthildur Kemp í góðum félagskap afreksnema sem hyggjast hefja nám í Háskóla Íslands í haust. Matthildur er þriðja frá hægri í fremri röð. Aðsend mynd.

Þrjátíu og þrír nemendur sem hyggjast hefja nám í Háskóla Íslands í haust tóku við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í gær en sjóðurinn fagnar tíu ára afmæli í ár. Styrkþegarnir koma úr tólf framhaldsskólum víða af landinu eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Matthildur Kemp Guðnadóttir frá Sauðárkróki var ein nemanna.

Við mat á styrkþegum er einnig horft til virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Þá leitast stjórn sjóðsins við að styrkja nýnema sem sýnt hafa fram á sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður. 

Matthildur Kemp Guðnadóttir lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki í desember 2017. Hún lét til sín taka í félagslífi skólans og var meðal annars formaður nemendafélagsins eitt ár. Þá hefur hún lagt stund á fiðlunám og leikið bæði með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Ungsinfóníunni. Enn fremur hefur hún stundað golf af kappi. Matthildur hyggur á nám i í læknisfræði í haust.

Styrkþegarnir 33, 12 karlar og 21 kona, hyggja á nám í yfir 20 mismunandi námsleiðum á öllum fimm fræðasviðum skólans. Í þessum glæsilega hópi eru enn fremur 13 dúxar og 3 semidúxar úr framhaldsskólum landsins á síðustu misserum og þrír styrkhafanna hlutu Menntaverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru við brautskráningar úr framhaldsskólum landsins í vor.

Fyrstu styrkirnir voru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands árið 2008 en frá þeim tíma hafa um 260 nemendur tekið við styrkjum úr sjóðnum. Hver styrkur í ár nemur 375 þúsund krónum og er samanlögð styrkupphæð því rúmar tólf milljónir króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir