Áætluð eyðsla 1,2 milljarður á ferðalagi um Norðurland

Þota frá easyJet nýlent á Akureyrarflugvelli. AÐSEND MYND
Þota frá easyJet nýlent á Akureyrarflugvelli. AÐSEND MYND
Ferðamenn sem komu með easyJet til Akureyrar veturinn 2023-2024 eyddu 493 milljón krónum á ferðalögum um Norðurland, samkvæmt skýrslu sem var birt á vef Ferðamálastofu í gær. Miðað við sömu forsendur og voru notaðar í skýrslunni, má áætla að veturinn 2024-2025 hafi heildareyðslan verið ríflega 1200 milljónir króna.
 
Skýrslan var unnin að beiðni Flugþróunarsjóðs til að kanna efnahagsleg áhrif millilandaflugs easyJet um Akureyrarflugvöll. Meðal annars voru áhrif á landsframleiðslu og skatttekjur metin, áhrif á Íslendinga sem fóru erlendis frá Akureyri í stað Keflavíkur, samfélagsáhrif og sjálfbærni og rekstrargrundvöllur þess að styðja nýjar flugleiðir með opinberu fjármagni.

Veturinn 2023-2024 komu 2.392 farþegar til Akureyrar með easyJet. Áætlað er að þeir hafi eytt 493 milljónum króna, miðað við heildareyðslu ferðamanna á landinu 2023.
 
Þar sem tölur um heildareyðslu ferðamanna árið 2024 liggja ekki fyrir, eru tölur fyrir veturinn 2024-2025 áætlaðar útfrá tölum um eyðslu 2023. Þann veturinn flaug easyJet áfram frá London og bætti við flugum frá Manchester, en flogið var tvisvar í viku frá báðum flugvöllum. Ætla má að heildarfjöldi erlendra farþega hafi meira en tvöfaldast þar sem Manchester bættist við og flugtímabilið frá London var lengra. Áætluð eyðsla þeirra er um 1250 milljónir króna reiknað á verðlagi í ágúst 2025.
 
/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir