Aðventan er að hefjast

Aðventan hefst í dag, sunnudaginn 3. desember. Orðið aðventa er dregið af latnesku orðunum Adventus Domini en þau þýða „koma Drottins“. Aðventan hefst á 4. sunnudegi fyrir jóladag og þegar aðfangadagurinn lendir á sunnudegi eins og gerist í ár er hann síðasti sunnudagur í aðventu. Aðventan hefst því eins seint og mögulegt er þetta árið. Aðventan er einnig kölluð jólafasta sem kemur til af því að fyrr á öldum mátti ekki borða hvaða mat sem var, til dæmis ekki kjöt, á þessum tíma. 

Í dag kveikjum við á fyrsta kertinu í aðventukransinum sem nefnist spádómakertið og minnir á fyrirheit spámanna Gamla testamentisins sem sögðu fyrir um komu frelsarans. Annað kertið nefnist Betlehemskertið sem vísar til þorpsins sem Jesús fæddist í, það þriðja, hirðakertið, minnir á fjárhirðana sem fengu tíðindin af fæðingu Krists á undan öllum öðrum og hið fjórða er englakertið sem minnir á englana sem báru fréttirnar af fæðingu frelsarans. Samkvæmt Vísindavefnum er aðventukransinn talinn er vera upprunninn í Þýskalandi á fyrri hluta 19. aldar og barst þaðan til Danmerkur og þaðan til Íslands þar sem hann var í upphafi aðallega notaður til að skreyta búðarglugga en fór svo að tíðkast á íslenskum heimilum á sjöunda áratug síðustu aldar og er nú ómissandi hluti aðventunnar í hugum flestra. 

Fastur liður í helgihaldi aðventunnar eru aðventuhátíðirnar sem haldnar eru í mörgum kirkjum landsins. Hér að neðan eru taldar þær aðventuhátíðir sem Feyki er kunnugt um.

Aðventuhátíð Miklabæjar- og Mælifellsprestakalls sunnudaginn 3. desember kl. 14:00.

Prestur er sr. Dalla Þórðardóttir og organisti Sveinn Árnason.
Fermingarbörn lesa og börnin syngja. Emelía Kvalvik Hannesdóttir og Áróra Ingibjörg Birgisdóttir flytja lag. Messukaffi verður í Héðinsminni.

Aðventuhátíð í Hofsósskirkju sunnudaginn 3. desember kl. 14:00.

Prestur sr. Ursula Árnadóttir. Kaffi í Höfðaborg á eftir.

Aðventuhátíð í Rípurkirkju sunnudaginn 3. desember kl. 16:00.

Prestur er sr. Gísli Gunnarsson og organisti Thomas R. Higgerson.
Fermingarbörn taka þátt í athöfninni og Matthildur Ingimarsdóttir á Flugumýri syngur einsöng.

Aðventuhátíð í Hvammstangakirkju sunnudaginn 3. desember kl. 20:00.

Prestur sr. Magnús Magnússon og organisti Pálína Fanney Skúladóttir.
Ræðumaður kvöldsins er Vilhjálmur Pétursson og kynnir: Eygló Hrund Guðmundsdóttir.
Kakó og smákökur í safnaðarheimilinu eftir stundina. 

Aðventuhátíð í Barðskirkju fimmtudaginn 7. desember kl. 16:00.

Prestur sr. Ursula Árnadóttir. Kaffi í Sólgarðaskóla á eftir.

Aðventuhátíð í Hóladómkirkju sunnudaginn 10. desember kl. 14:00.

Prestur sr. Ursula Árnadóttir. Kaffi Undir Byrðunni á eftir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir