Afrískur dans á Barnamenningardögum

Sandra Sano Erlingsdóttir og Mamady Sano. Mynd af Facebooksíðu Dans Afríka Iceland.
Sandra Sano Erlingsdóttir og Mamady Sano. Mynd af Facebooksíðu Dans Afríka Iceland.

Eins og undanfarin ár stendur Tónadans fyrir Barnamenningardögum í Skagafirði og verður margt á dagskránni hjá þeim. Meðal annars koma hingað danskennarar frá Dans Afrika Iceland dagana 26. og 27. apríl og halda námskeið í afrískum dönsum í sal FNV.  Frítt er á námskeiðin svo það er um að gera að fjölmenna.

Í fréttatilkynningu frá Tónadansi segir:

„Þau Sandra og Mamady halda skemmtileg námskeið í afrískum dönsum fyrir okkur á barnamenningardögum! Þau eru þekkt víða um heim og halda fjölda námskeiða og erum við svo heppin að fá þau til okkar! Látum okkur ekki vanta á námskeið hjá þeim. Það er hægt að mæta bæði föstudag og laugardag, allt eins og hver vill.“ 

Dagskráin er sem hér segir: 

Föstudagur 26. apríl:

Kl. 16-17             - Námskeið ætlað börnum í 3.-5.bekk - opið öllum.
Kl. 17:30-18:30  - Unglinganámskeið – opið öllum. 

Laugardagur 27. apríl:

Kl. 10-11             - Börn og foreldrar dansa saman – opið öllum.
Kl. 11:30-12:30  - Námskeið fyrir nemendur Tónadans. 

Dans Afríka Iceland var stofnað af Mamady Sano og Söndru Sano Erlingsdóttur til að efla afrískan dans og trommur á Íslandi og sérhæfa þau sig í dansi og trommuleik frá Gíneu í V-Afríku.

Sandra hefur kennt dans á Íslandi síðan hún flutti heim frá New York 2005. Hún kennir afrískan dans og Hiphop í Dans Afríka Iceland, Kramhúsinu, Dans Brynju Péturs, Listdansskóla Hafnarfjarðar og víðar. Hún hefur sett upp ótal danssýningar, nemendasýningar og tekið þátt í atburðum um allt land.
Sandra lærði í New York og Gíneu í V-Afríku þar sem hún einbeitti sér að afrískum dansi, Hip hop og Krump. Sandra heimsækir New York og Afríku reglulega. 

Mamady er einn eftirsóttasti afríski danskennari og trommari frá Gíneu í heiminum og ferðast enn út um allan heim til að kenna og taka þátt í sýningum. Hann bjó í New York í 16 ár og kenndi meðal annars við Long Island University og Alvin Ailey.
Mamady hefur sett upp ótal danssýningar, nemendasýningar og tekið þátt í atburðum út um allan heim. Hér á landi kennir hann í Dans Afríka Iceland, Kramhúsinu, Menntaskólanum í tónlist og víðar. 

„Við erum að fá til okkar heimsklassa kennara og látum það ekki framhjá okkur fara,“ segir í tilkynningu Tónadans. 

Nánari upplýsingar um Barnamenningardaga má finna á Facebooksíðu Tónadans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir