Aldan stéttarfélag undirbýr launakröfur
Trúnaðarráð Öldunnar stéttarfélags kemur saman til fundar á Sauðárkróki síðdegis í dag, þar sem áherslur félagsins í væntanlegum kjaraviðræðum við vinnuveitendur verða á dagskrá.
Gildandi kjarasamningar renna flestir út í lok febrúar og segir Þórarinn Sverrisson formaður Öldunnar að kröfugerð félagsins verði send Starfsgreinasambandi Íslands síðar í mánuðinum.
„Við höfum haldið fundi á vinnustöðum á félagssvæðinu og heyrt í fólki varðandi kröfugerðina. Þeir fundir voru einkar ánægjulegir og gefandi. Tónninn í atvinnurekendum á undanförnum vikum er á þeim nótum að svo gæti farið að komandi viðræður gætu orðið erfiðar. Þess vegna er mikilvægt að hafa gott og traust bakland í héraði. Almennt launafólk getur ekki lifað af venjulegum dagvinnulaunum og því verður að breyta. Við þekkjum öll miklar hækkanir sumra stétta á undanförnum vikum og mánuðum, það gengur ekki að almennt launafólk verði skilið eftir,“ segir Þórarinn. „Ég er talsmaður þess að semja um krónutöluhækkun, sérstaklega lægstu launa.“
Fréttatilkynning/KEP