Húnabyggð og Leigufélagið Bríet gera með sér samkomulag um styrkingu leigumarkaðar á Blönduósi

Iða Marsibil og Pétur sveitarstjóri handsala samninginn. AÐSEND MYND
Iða Marsibil og Pétur sveitarstjóri handsala samninginn. AÐSEND MYND

Sveitarstjórn Húnabyggðar samþykkti á fundi sínum í gær 17. desember 2025, samkomulag við Leigufélagið Bríeti um uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar í sveitarfélaginu.

Samningurinn hljóðar upp á að í kjölfar kaupa Bríetar á fasteignum við Flúðabakka 5 á Blönduósi, muni Húnabyggð leggja inn í verkefnið framlag að andvirði 27-30% af kaupverðinu. Framlagið verður í formi þriggja fasteigna sem sveitarfélagið á og rekur í dag. Bríet mun greiða Húnabyggð kaupverðið með hlutabréfum í félaginu.

Samhliða þessu, var undirrituð viljayfirlýsing milli Húnabyggðar og Bríetar um uppbyggingu leiguíbúða og styrkingu leigumarkaðar í sveitarfélaginu.

Með viljayfirlýsingunni lýsa aðilar sig reiðubúna til að hefja samtal um uppbyggingu leiguhúsnæðis á Blönduósi, sveitarfélagið mun tryggja leigufélaginu aðgengi að hagkvæmum lóðum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. Verkefnið og skipulag þess verður skilgreint nánar á fyrsta ársfjórðungi ársins 2026.

Iða Marsibil Jósdóttir framkvæmdastjóri Bríetar segir verkefnið á Blönduósi styðja vel við markmið og framtíðarsýn félagsins. „Markmið Bríetar er að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar sem stuðlar að öryggi á langtímaleigumarkaði með sérstaka áherslu á landsbyggðina og í samstarfi við sveitarfélögin í landinu. Langtímamarkmið Bríetar er að stuðla að nýsköpun og uppbyggingu þar sem þörf er á því á landsbyggðinni.“

Pétur Arason sveitarstjóri Húnabyggðar lýsir yfir mikilli ánægju með samkomulagið og viljayfirlýsinguna. „Íbúðirnar við Flúðabakka eru mjög spennandi kostur fyrir fólk sem er aðeins komið yfir miðja aldur og vill minnka við sig. Verði það raunin þá losna stærri sérbýli sem henta barnafjölskyldum og það skapast svigrúm fyrir fólksfjölgun á svæðinu. Að sama skapi mun frekari samvinna með Bríet skapa íbúðarúrræði önnur en einbýlishús. Þetta er því á heildina litið mjög jákvætt mál og ástæða til að fagna þessari uppbyggingu. Ég tel að hún sé að koma á hárréttum tíma þar sem uppbygging lágvöruverslunar og fjölorkustöðvar er handan við hornið. Þá eru ótalin þau járn sem við erum nýbúin að setja í eldinn og því engin ástæða til annars en að vera jákvæð og bjartsýn.”

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir