Alls urðu 35 af 131 frumvarpi að lögum
Þá eru þingmenn loks komnir í sumarfrí en eftir að forseti Alþingis virkjaði kjarnorkuákvæðið sl. föstudag var samið um þinglok og var þingfundum 156. löggjafarþings því frestað í gær, þann 14. júlí. Þingið var að störfum frá 4. febrúar til 14. júlí 2026. Á síðasta degi var veiðigjaldafrumvarp Hönnu Katrínar atvinnuvegaráðherra loks samþykkt en um það hefur staðið mikill styr eins og hefur sennilega ekki farið framhjá nokkrum manni.
Starfsmenn Alþingis tóku saman tölfræðilegar upplýsingar um löggjafarþingið og sendu á fjölmiðla. Hér má sjá upptalninguna:
- Þingfundir voru samtals 91 og stóðu í 710 klukkustundir og 10 mínútur. Meðallengd þingfunda var um átta klukkustundir. Lengsti þingfundurinn stóð í 18 klukkustundir og 30 mínútur. Lengsta umræðan var um veiðigjöld en hún stóð samtals í 162 klukkustundir og 13 mínútur.
- Þingfundadagar voru alls 83.
- Af 131 frumvörpum urðu alls 35 að lögum og 96 voru óútrædd. Af 71 þingsályktunartillögum voru 12 samþykktar og 59 tillögur voru óútræddar.
- 21 skrifleg skýrsla var lögð fram. Níu beiðnir um skýrslur komu fram, allar til ráðherra. Ein munnleg skýrsla ráðherra var flutt.
- Fyrirspurnir á þingskjölum voru samtals 266. Fyrirspurnir til munnlegs svars voru 17 og var 12 svarað en ein felld niður vegna ráðherraskipta. 249 skriflegar fyrirspurnir voru lagðar fram og var 159 þeirra svarað en ein felld niður vegna ráðherraskipta. 89 biðu svars er þingi var frestað.
- Þingmál til meðferðar í þinginu voru 502 og tala þingskjala var 869.
- Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru 168.
- Sérstakar umræður voru tíu.
- Samtals höfðu verið haldnir 292 fundir hjá fastanefndum þegar þingfundum var frestað.
- Opnir nefndafundir voru fimm.
Eflaust hafa þingmenn hoppað kátir út um dyrnar eftir frestun.