Allt á kafi í Tindastól!

Svona var staðan í Stólnum fyrir sex dögum en síðan hefur bara bæst við meiri snjór.  MYND AF FB-SÍÐU SKÍÐASVÆÐIS TINDASTÓLS
Svona var staðan í Stólnum fyrir sex dögum en síðan hefur bara bæst við meiri snjór. MYND AF FB-SÍÐU SKÍÐASVÆÐIS TINDASTÓLS

Það kyngdi niður hvítagullinu á skíðasvæði Tindastóls í Tindastólnum í lok síðustu viku og útlit fyrir ævintýradaga nú um páskahelgina fyrir þá sem vilja renna sér á skíðum eða brettum í bestu brekkunni. Að sögn Sigurðar Haukssonar svæðisstjóra þá verður efri lyftan að öllum líkindum opnuð á morgun, miðvikudag, ef veður leyfir en opnunartímar á svæðinu þessa vikuna og um helgina eru frá kl. 11-16.

Sigurður segir að það sé mikið fjör framundan í Tindastólnum; páskaeggjaleit og kampavínspúður í brekkunum. Hann segir vikuna hafa byrjað vel, skíðasvæðið hafi verið vel sótt í dag og gær og stefnir í frábæra paska.

Um liðna helgi fór hið nú árlega Tindastuð fram á svæðinu og þó veðurguðirnir hafi aðeins strítt stuðhöldurum þá segir Sigurður að vel hafi tekist til. „Frá miðvikudegi til laugardagsmorguns var víðast hvar ófært og það hefur ekki verið jafn mikill snjór á skíðasvæðinu síðan veturin '21. Þrátt fyrir aðstæður var góð mæting og mikið skíðað yfir kvöldið. Stemningin var ólýsanleg!“ segir hann og kemst þannig hjá því að lýsa þessu frekar fyrir lesendum.

Það er því ekkert vit í öðru fyrir skíðavini en grafa upp skíðin eftir snjóléttan vetur og krækja í smá skammt af útivistarhamingju í Stólnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir