Arnar HU 1 landaði rúmum 532 tonnum

Bátar við Skagastrandahöfn. Mynd: Ómar Una
Bátar við Skagastrandahöfn. Mynd: Ómar Una

AFLATÖLUR | Dagana 2. maí til 8. maí 2021 á Norðurlandi vestra

Í síðustu viku voru það hvorki meira né minna en 45 bátar sem voru á veiðum á Norðurlandi vestra og er greinilegt að strandveiðarnar eru byrjaðar.

Í Sauðárkrókshöfn var landað tæpum 789 tonnum og var það Arnar HU 1 sem var aflahæstur með rúm 532 tonn. Drangey og Málmey lönduðu samanlangt tæpum 214 tonnum og var uppistaðan hjá þeim báðum þorskur. Á Skagaströnd var það Onni HU 36 sem var aflahæstur með 16.581 kg. en alls var þar landað rúmum 75 tonnum. Einn bátur landaði á Hvammstanga en það var Steini G HU 45 sem var með 5.040 kg. af grásleppu. Fimm bátar lönduðu á Hofsósi, þar af tveir frá Siglufirði, alls 13.883 kg. Heildarafli á Norðurlandi vestra var 882.754 kg.

Nú eru fimm vikur liðnar síðan fyrstu bátarnir skráðu sig á gráslepputímabilið og þar sem veiðidögunum var fækkað úr 40 niður í 35 þá þurftu margir að draga upp netin sín í síðustu viku. Ennþá eru bátar að skrá sig inn á tímabilið en hugsanlega eru það þeir sem eiga fleiri en einn bát með grásleppuleyfi og er því komið að næsta bát. Aflahæsti bátur vikunnar á Norðurlandi vestra var Steini G SK 14 frá Sauðárkróki með alls 13.389 kg en hann er ennþá aflahæsti báturinn frá því veiðar hófust með tæpt 61 tonn. Næst aflahæsti báturinn er Bergur Sterki HU 17 frá Skagaströnd með tæp 48 tonn. Alls var landað tæpum 84 tonnum í þessari viku af grásleppu en frá upphafi tímabilsins er búið að landa 570.510 kg. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir