Ársreikningar Húnaþings vestra samþykktir

 Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra sem haldinn var í gær, 11. maí, var ársreikningur sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2016 tekinn til síðari umræðu og hann samþykktur.

Rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins  árið 2016 var jákvæð um 148,8 milljónir króna, samanborið við 82,8 milljón króna jákvæða niðurstöðu árið 2015. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 132,4 milljónir, samanborið við 60,3 milljón króna jákvæða niðurstöðu 2015. Skuldahlutfall A og B hluta var 52% í lok árs 2016 en var 62,8% í lok árs 2015. Miðað er við að hlutfallið sé ekki hærra en 150%. Þetta kemur fram í helstu niðurstöðu ársreiknings Húnaþings vestra fyrir árið 2016 eins og fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar

Þar segir að ljóst sé að staða sveitarfélagsins sé góð og í jafnvægi þrátt fyrir stórauknar framkvæmdir, hátt þjónustustig og aukinn kostnað sveitarfélagsins almennt. Þessi góða staða sé ekki sjálfgefin og fá stjórnendur og starfsfólk sveitarfélagsins þakkir frá sveitarstjórn fyrir aðhald og skynsemi í rekstri á árinu 2016.

Langtímaskuldir A og B hluta voru um síðustu áramót 431, milljón og höfðu þær lækkað um rúma 41 milljón á árinu. Veltufé frá rekstri nam 227,6 milljónum króna árið 2016 miðað við 158,2 milljónir árið 2015. Handbært fé frá rekstri A og B hluta var 154,3 milljónir. Fjárfestingar á árinu námu 113,4 milljónum króna, samanborið við 181,6 milljónir árið 2015. Stærstu fjárfestingarnar voru í hitaveitu og ljósleiðara í dreifbýli, gatnagerð, skipulagsmál og breytingar á húsnæði grunnskólans.

Fleiri fréttir