Auglýst eftir umsóknum í Húnasjóð
Húnaþing vestra auglýsir eftir umsóknum í Húnasjóð en sjóðurinn hefur þann tilgang að stuðla að endurmenntun og fagmenntun í Húnaþingi vestra. Þeir sem eiga möguleika á styrk úr sjóðnum eru háskólanemar að undanskildum doktorsnemum, og þeir sem stunda fagnám til starfsréttinda og eru ekki á samningi við vinnuveitanda í starfsgrein sinni. Viðkomandi þarf að vera á síðasta námsári eða að hafa lokið námi sínu eftir síðustu úthlutun til að geta fengið styrk. Einnig veitir sjóðurinn styrki vegna námskeiða sé talið að þau styrki viðkomandi í starfi og hann sé ekki styrktur af vinnuveitanda sínum eða stéttarfélagi.
Styrkurinn er eingöngu veittur þeim sem lögheimili eiga í Húnaþingi vestra og hafa átt það a.m.k. frá 1. desember árið fyrir úthlutun. Ennfremur geta þeir námsmenn sótt um í sjóðinn sem stunda nám erlendis og hafa þurft að flytja lögheimili sitt þangað, hafi lögheimili þeirra verið í Húnaþingi vestra síðustu sex mánuði fyrir flutning.
Húnasjóður var stofnaður af hjónunum Ásgeiri Magnússyni og Unni Ásmundsdóttur til að minnast starfsemi Alþýðuskóla Húnvetninga en Ásgeir stofnaði skólann og rak hann á Hvammstanga árin 1913-1920.
Skriflegar umsóknir um styrk vegna ársins 2017 ásamt lýsingu á námi skulu berast skrifstofu Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5 á Hvammstanga á þar til gerðum eyðublöðum í síðasta lagi 12. júlí n.k.
Umsóknareyðublöð má nálgast á skrifstofu sveitarfélagsins eða á heimasíðunni www.hunathing.is undir liðnum eyðublöð.
Úthlutunarreglur sjóðsins er að finna hér.