„Jólalögin eru best eins og þau munu hljóma í Gránu“ / HULDA JÓNASAR

Hulda Jónasdóttir býr í Mosfellsbæ, nánar tiltekið Mosfellsdalnum sem hún telur að sé trúlega einn fallegasti staðurinn á landinu. Hulda, sem er af 1963 árganginum, hefur verið iðin við að setja upp tónleika síðustu árin. „Ég ólst upp á Króknum og tel það mikil forréttindi. Krókurinn var og er dásamlegur staður. Ég er dóttir hjónanna Jónasar Þórs Pálssonar (Ninna málara), sem var mjög áberandi í menningarlífi Skagfirðinga hér á árum áður, trommari, leiktjaldasmiður, málari og margt annað, og Erlu Gígju Þorvaldsdóttur sem einnig hefur sett sinn svip á menningarlífið, átti m.a. lög í söngvakeppnum og hefur samið töluvert af tónlist og á eitt jólalag á væntanlegum jólatónleikum okkar í Gránu.“

Hulda lærði á píanó hjá Evu Snæbjarnardóttur í gamla daga en aðspurð um helstu tónlistarafrekin segir hún: „Ætli mín helstu tónlistarafrek séu ekki tónleikarnir mínir sem ég hef verið að halda undanfarin ár. Ég á og rek lítið fyrirtæki sem ég kalla Gná tónlist. Höfum verið að halda alls konar tónleika víða um land. Meðal annars rifjuðum við upp sögu Danslagakeppni Kvenfélagsins á Króknum, sjómannalögin og lög Geirmundar Valtýssonar svo eitthvað sé nefnt. Nú og svo söng ég með Skagfirsku söngsveitinni I mörg ár.“

Hvað er í deiglunni? Næst á dagskrá hjá okkur eru ótrúlega skemmtilegir tónleikar sem heita Jólin í Gránu, jólatónleikar sem verða haldnir á Sauðárkróki í ótrúlega skemmtilegum og fallegum tónleikasal - Háa Salnum. Þar ætlum við m.a. að flytja glænýja jólatónlist eftir skagfirska höfunda í bland við gömlu góðu jólalögin. Erum með sömu hljómsveit og var með okkur í lögunum hans Geira, hreint ótrúlega hæfileikaríkir drengir sem geta held ég allt. Svo valdi ég átta frábæra söngfugla, sem ég held persónulega mjög mikið upp á, til þess að flytja öll þessi fallegu lög. Barnakór frá Tónadansi verður líka með okkur til að krydda þetta allt saman og svo auðvitað mín hægri hönd í þessu öllu, hún Valgerður Erlingsdóttir snillingur. Hún er svo skemmtileg og dásamleg að ég á ekki einu sinni nógu mörg orð til þess að lýsa henni. Nú svo er ýmislegt spennandi á teikniborðinu hjá mér á nýju ári.“

Hvaða lag varstu að hlusta á? „Ég er gamall ABBA aðdáandi og eins og allir vita að þá voru þau að senda frá sér nýtt efni . Nýju lögin þeirra hafa því hljómað mikið undanfarið hjá mér bæði í bílnum og heima . Lög sem vaxa við hverja hlustun. Og þarna má m.a finna fyrsta jólalag þeirra sem mér finnst algjörlega dásamlegt.“

Uppáhalds tónlistartímabil? „Mér finnst öll tónlistartímabil skemmtileg.“

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Það er svo mikið í boði og mikið af nýjum frábærum tónlistarmönnum á ferðinni að það er erfitt að velja úr. En mig langar að nefna unga skagfirska tónlistarkonu sem heitir Inga Birna og kallar sig Blankiflur. Mér finnst hún hreint frábær.“

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Pabbi hlustaði á jazz og blues en mamma meira á karlakóra og gamla íslenska tónlist. Saman hlustuðu þau svo á klassíska tónlist þannig að tónlistarvalið hjá þeim var mjög fjölbreytt. Þegar ég stofnaði síðan mína fjölskyldu þá má segja að hlustun á tónlist hafi bara aukist. Börnin mín eru bæði mikið í tónlist og maðurinn minn mjög tónelskur.“

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Ég var svo ung þegar ég byrjaði að hlusta á tónlist, ætli ég hafi ekki verið 6 eða 7 ára þegar ég eignaðist mína fyrstu vínylplötu og var það plata með Bessa Bjarnasyni leikara þar sem hann söng vísur Stefáns Jónssonar. Svo var ég algjör aðdáandi Svanhildar Jakobsdóttur og eignaðist plöturnar hennar. Svo er gaman að segja frá því að Svanhildur hefur unnið töluvert mikið með okkur hjá Gná tónleikum, dásamleg kona.“

Hvaða græjur varstu þá með? „Ég átti gamlan plötuspilara sem hægt var að setja í margar plötur í einu, man ekki hvaða gerð hann var.“

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „What a Wonderful World með Louis Armstrong – elska það ennþá

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? „Læt ekkert lag eyðileggja fyrir mér daginn, ég bara skipti um stöð eða slekk.“

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Gömlu góðu diskólögin og auðvita ABBA.“

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Evu Cassidy sem er ein af mínum uppáhalds.“

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég er nú svo heppin að ég hef verið dugleg að ferðast um heiminn og sjá marga af mínum uppáhalds tónlistarmönnum en væri alveg til í að sjá ABBA, alveg sama hvar. Ég myndi taka dóttur mína með sem mér tókst að gera að algjörum ABBA aðdáenda.“

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „Örugglega ABBA eða Rolling Stones.“

Hvaða tónlistarmaður hefur haft mest áhrift á þig? „Eva Cassidy hefur haft mikil áhrif á mig og Tina Turner líka. Magnaðar tónlistarkonur.“

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða haft mest áhrif á þig? „Það hafa verið gefnar út svo margar magnaðar plötur að það er erfitt að svara þessari spurning. Arrival með Abba, Grace með Jeff Buckley og Rumours með Fleetwood Mac eru plötur sem höfðu mikil áhrif á mig á sínum tíma.“

Hvenær má byrja að spila jólalögin og hvernig eru jólalögin best? „Það má byrja að spila jólalögin í nóvember og mér finnst jólalögin auðvitað best eins og þau munu hljóma í Gránu þann 18. desember næstkomandi.“

Hvað er fyrsta jólalagið sem þú manst eftir að hafa fallið fyrir og hvaða jólalag finnst þér fallegast? „Á mínu æskuheimili var alltaf spiluð sama vínylplatan meðan jólasteikin var borðuð á aðfangadagskvöld en það var jólaplata með Mahalíu Jackson og á þessi plata alltaf sérstakan stað í hjarta mínu. Mér finnst ótrúlega fallegt jólalagið Hin fyrstu jól eftir Ingibjörgu Þorbergs.“

Ef þú mættir setja saman einn jóladúett hvaða söngvara myndirðu velja (lífs eða liðnir) og hvaða lag yrði sungið?„Væri til í að heyra Mahalíu Jackson og Valdimar taka saman lagið Oh little town of Bethlehem í gospel-útgáfu Tvær magnaðar raddir og eitt fallegasta jólalagið.“

Hvenær eru jólin komin? „Klukkan 18 á aðfangadag þegar jólaklukkurnar klingja inn jólin og friður jólanna færist yfir.“

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? „Þau geta nú verið ansi mismunandi eftir því hvenær þú spyrð en þessi poppuðu upp sem mest spiluð á Spotify þessa dagana. Litla ömmusnúllan mín er aðeins byrjuð að hlusta með mér og því hljómar visst lag á listanum mjög oft hjá mér þessa dagana...

Little Things - ABBA
Feels Like Home- Nora Jones
Pleasure- Blankiflur
Vár dröm om julen – Carola
I Can Be That Woman- ABBA
Pósturinn Páll – Magnús þór

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir