Aukatónleikar með Ásgeiri Trausta á Hvammstanga

Uppselt er á tónleika Ásgeirs í Félagsheimilinu á Hvammstanga á laugardagskvöld. Aukatónleikar sem hefjast kl 17.00 samdægurs eru farnir í sölu á Tix.is

Beint á vínyl / Straight to Vinyl hefst í dag 

Í dag kl 17.00 hefst svo Beint á vínyl / Straight to Vinyl verkefni Ásgeirs en hann ætlar að taka upp eins margar 7” vínylplötur og hann kemst yfir samfleytt í 24 klukkustundir í hinu sögufræga hljóðveri Hljóðrita í Hafnarfirði. Bein útsending verður frá upptökununum á RÚV 2 og RÚV.is í svokölluðu hægvarpi.
www.asgeirmusic.com/straighttovinyl

 Ásgeir mun taka einfaldar og öðruvísi útgáfur af eigin lögum og jafnvel fá góðkunn lög eftir aðra listamenn að fljóta með ef sá gállinn er á honum. Lögin verða tekin upp beint á vínyl með vínylskurðarvél og verður því hver útgáfa lags einungis til í einu eintaki og þar af leiðandi er hver vínylplata algjörlega einstakur gripur. 

Í þessar 24 klukkustundir sem útsendingin varir mun Ásgeir fá til sín nokkra góða gesti sem aðstoða við upptökur eða detta inn í kaffibolla og spjall. Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar Vinyll.is fékk aðstöðu í Hljóðrita en um er að ræða litla “vínylverksmiðju” sem handskrifar vínylplötur og endurtekur ferlið fyrir hverja plötu sem þarf að gera. Með “vínylverksmiðjuna” staðsetta í Hljóðrita skapaðist tækifæri til að taka upp beint á vínyl og búaþannig til eitthvað alveg einstakt fyrir aðdáendur Ásgeirs um heim allan. Þeim mun svo gefast tækifæri til að næla sér í eintak í alþjóðlegri fjársjóðsleit (Treasure Hunt) sem verður kynnt betur síðar. Einnig er mögulegt að lítið upplag af framleiðslunni fari í sölu síðar meir. 

Útsendingin frá Hljóðrita hefst kl 17.00 í dag og stendur, eins og áður segir, yfir í 24 klukkustundir. Um er að ræða útsendinginu í anda hægvarps eða „Slow TV“ sem á uppruna sinn að rekja til NRK, norska ríkissjónvarpsins. NRK hefur sent beint út klukkustundum saman frá sömu athöfninni eins og ferjuferð, prjónaskap og fuglabjargi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem RÚV tekst á við hægvarp því fyrir um ári síðan var sýnt beint frá hringferð hljómsveitarinnar Sigur rósar í 24 klukkustundir og þar á undan hafði verið sýnt beint frá sauðburði við góðar undirtektir landsmanna. 

Til viðbótar við beina útsendingu á vef RÚV og á RÚV 2 verður hægt að horfa á útsendinguna á Youtube-rás Ásgeirs og fylgjast með lýsingu og myndum frá upptökunum á Twitter og Instagram síðum Ásgeirs og RÚV. Rás 2 mun einnig taka virkan þátt í viðburðinum og upplýsa hlustendur um gang mála í Hljóðrita. 

Við hvetjum landsmenn alla til að fylgjast með útsendingunni og taka þátt í henni með sköpunargleðina að leiðarljósi — #asgeirstraighttovinyl

www.asgeirmusic.com/straighttovinyl

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir